Bláskeggur eftirstríðsáranna
Í janúarleiðangri mínum um lendur netsins í leit að ósénum verðlaunamyndum fyrri áratuga varð mér oft hugsað til þeirrar grundvallarbreytingar sem varð um 2000 og HBO var lykilleikari í þegar áhugaverðustu handritshöfundarnir yfirgáfu kvikmyndina og gerðu sjónvarpið að miðpunkti afþreyingar. The Heartbreak Kid (1972) hlaut eins og allar hinar sem ég elti uppi í janúar viðurkenningu og verðlaun á sínum tíma en þó hafði mér ekki tekist að sjá hana á 52 árum og þekki raunar fáa sem hafa séð hana (hún var sýnd á Íslandi jólin 1974 og hét Söguleg brúðkaupsferð). Þetta er kvikmyndaaðlögun á leikriti Neil Simon sem var unnið upp úr smásögu eftir annan mann. Aðalleikarar eru Charles Grodin, Cybill Shepherd, Eddie Albert og Jeannie Berlin en bæði síðastnefndu hlutu óskarsverðlaunatilnefningu enda með bitastæðustu hlutverkin. Elaine May leikstýrir en hún var ein örfárra kvenna sem leikstýrði toppmyndum á þeim tíma og raunar ekki mörgum. Ég man ekki eftir að hafa séð Berlin áður í kvikmynd en hana rak á fjörur mínar aftur skömmu síðar (sjá pistil eftir viku eða tvær). Neil Simon var auðvitað frægur á 8. áratugnum en foreldrar mínir höfðu ekki smekk fyrir honum og ég á ekki von á að þau hefðu haft smekk fyrir þessari mynd.
Þegar myndin var að hefjast var ég þó fullur efasemda því að hún var aðallega sorgleg í fyrstu. Maðurinn í myndinni hefur gifst gersamlega óþolandi konu og í brúðkaupsferðinni sem hefst á löngum og sveittum bíltúr til Florida sér maður draga smám saman úr honum allan þrótt og finnst það mjög skiljanlegt, jafn óþolandi og konan er (hann virðist ekki hafa þekkt hana mikið fyrir brúðkaupið). Síðan koma þau á áfangastað en þá snýst allt á haus, a.m.k. hvað varðar þennan áhorfanda. Myndin verður ívið fyndnari, eiginkonan fær meiri samúð og söguhetjan minni. Náunginn fer að eltast við ljóshærða dömu, lýgur og svíkur nýju eiginkonuna og að lokum segir hann henni upp á veitingastað sem er raunar bæði fyndið og sársaukafullt atriði og minnir á The Office og annan nýmóðins sársaukahúmor.
Eftir þetta snýst myndin um tilraunir mannsins til að kjafta sig inn á hina konuna og fjölskyldu hennar en pabbi hennar hatar manninn (eðlilega) og er til í að greiða honum fúlgur fjár fyrir að láta sig hverfa. Hann gefst hins vegar aldrei upp og er giftur þessari fremur þokukenndu draumkonu sinni aftur í lokin, eins og álfur úr hól í nýju fjölskyldunni. Samkvæmt gagnrýnendum 8. áratugarins var Neil Simon að gera upp við ákveðna týpu af gyðingi sem er mjög ýtinn (það er maðurinn í myndinni sannarlega) og æstur að tengjast hvítum engilsaxneskum mótmælendafjölskyldum en mun aldrei komast fullkomlega inn í þær (kannski Jared Kushner og Trump-fjölskyldan séu hliðstæður?). Ég hef ekki næga þekkingu á bandarísku efrimillistéttarsamfélagi eða verkum Neil Simon til að meta þetta en myndin hefur samt lifað ágætlega í minningunni síðan í janúar, líklega vegna þess að að hún neyðir áheyrendur í erfitt ferðalag hvað varðar samúð með fyrri konunni kokkáluðu. Býsna vel gert og ekki síst hjá hinni ungu Jeannie Berlin sem fór með það hlutverk.