Ritdómarnir sem hurfu

Ég gaf fyrst út bók árið 1997 og síðan hef ég verið í forsvari fyrir ríflega 30 bækur á Íslandi og nálægt 10 erlendis, ýmist sem ritstjóri, drifkraftur eða þá eini höfundurinn. Skáldverkin eru að nálgast 20. Eðlilega hef ég því talsverðan samanburð og verð áþreifanlega var við muninn á bókmenntalífinu fyrir aldarfjórðungi og núna. Fyrsta bókin mín var Í leit að konungi, tiltölulega sérhæfð fræðibók um viðhorf Íslendinga til konungsvalds á miðöldum. Að sjálfsögðu fékk hún ritdóm í öllum helstu blöðum og tímaritum, líka utan Íslands (sá besti birtist í The Journal of English and Germanic Philology og má sjá upphaf hans að neðan — þetta er sá eini sem ég man). Vorið 2022 gaf ég út mína þrettándu skáldsögu og hef að mínu eigin mati aldrei verið betri en nú. Engan ritdóm hef ég séð í neinum fjöl- eða fámiðli og var bókin þó ekkert sérstaklega hunsuð því að engir fjöl- eða fámiðlar birta lengur ritdóma um nema sárafáar bækur. Ritdómar í tímaritum eru enn fáséðari og langt er síðan slíkur birtist um skáldverk eftir mig.

Þó að mér finnist auðvitað leitt að vera ekki jafn vinsæll núna og á yngri árum (svo mjög að ég hef stofnað minn eigin miðil þar sem ég er mjög vinsæll) er enn sorglegra að í raun snýst þetta ekki um aldur minn og ókúlheit nema að takmörkuðu leyti en aðallega um hrun menningarumfjöllunar á Íslandi og þar á meðal ritdóma. Ef til vill er þetta forsmekkurinn að því að íslenskir fjölmiðlar hverfi alfarið enda fylgjast æ færri með þeim – en gæti það ekki verið meðal annars vegna þess að flestir ákváðu fyrir 10-20 árum að menningarumfjöllun væri ekki kjarnastarfsemi og brýnna væri að fræða þjóðina um það hvað dólgar geipa um á samfélagmiðlum? Hvað sem því líður finnst manni ólíklegt að menningarumfjöllun eigi sér framtíð í íslenskum fjölmiðlum. Mun hún eignast annað afdrep?

Previous
Previous

Bláskeggur eftirstríðsáranna

Next
Next

Enid Blyton, Roald Dahl og nýlendustefnan