Enid Blyton, Roald Dahl og nýlendustefnan

Ég hélt erindi fyrir fjölmenna fræðslusamkomu Kvenfélagsins Hringsins 1. mars og valdi að ræða Enid Blyton á Íslandi enda var það eitt efnið sem skipulagsnefndin lýsti áhuga á. Þennan fyrirlestur get ég haldið eins oft og þess er óskað en margt efnið kom auðvitað fram í þessari gömlu grein og eitthvað til viðbótar í þessari. Vegna nýlegrar umræðu um breytingar á nýjum útgáfum gamalla bóka barst talið að ritskoðun og hugsanlegum rasisma gamalla höfunda. Ég gat þá sagt frá miklum áhuga á verkum höfundarins á Indlandi en þar keppast margir um að safna bókum hennar 762 (eða þar um bil). Í fyrra rakst ég á netspjallþráð um efnið þar sem nokkrir Englendingar eða Ameríkanar furðuðu sig á dálæti Indverja á þessum rasíska höfundi en því svaraði manneskja með indverskt nafn á þá leið að í hugum margra Indverja væri nýlendustefnan ekki fortíð heldur í fullum gangi og enginn þar liti á Enid Blyton sem meiri rasista en Vesturlandabúa yfirleitt enda þeir meira og minna sannfærðir um það að misskipting auðs og valda í heiminum í eigin þágu væri eitt af náttúrulögmálunum, í verki ef ekki orði.

Það hefur varla liðið sá dagur síðan að ég hafi ekki hugleitt þetta stutta netsvar (sem ég er því miður búinn að týna) og mun ræða það frekar í lokin en um rasisma Enid Blyton og stjórnmálaskoðanir er þetta að segja að það sem er sérkennilegt við bækur hennar miðað við tímann sem þær eru samdar (langflestar milli 1937 og 1963) er mikill áhugi á kynusla og óvenjuleg umræða um kynhlutverk. Eins lýsir Enid Blyton sósíalískri útópíu í bókum sínum um Baldintátu, skóla þar sem öll börnin eru látin gefa alla sína peninga og síðan er deilt út nákvæmlega jafn miklum peningum á mann — þetta er ekki aðeins hærri skattprósenta eins og tíðkast á Íslandi og öðrum sósíalískustu ríkjunum á Vesturlöndum heldur fá allir beinlínis jafn mikið. Þetta var alls ekki meginstraumshugsun Englendinga á þeim tíma. Hugsunarlaus rasismi, fordómar í garð sígauna og hefðbundin kynhlutverk eru auðvitað líka fyrir hendi í verkum Blyton en ekkert af þessu var undantekning í enskri umræðu árið 1950 heldur regla þannig að ég myndi ekki kalla höfundinn rasista heldur Vesturlandabúa síns tíma, hvorki verri né betri en flesta (þeir voru flestallir rasistar og ekki endilega vont fólk samt). Þetta hefur verið misskilið mjög í Englandi þar sem Enid er mikið rædd af fólki sem aldrei hefur lesið hana — allir vinir mínir fara strax að tala um „lashings of ginger beer“ þegar talið berst að henni en það er frasi sem hugsanlega kemur fyrir í bók eftir hana en þó engri af þeim 30 sem ég hef sjálfur lesið á ensku. Enid Blyton hefur líka undanfarið verið dregin inn í umræðu seinustu ára um Brexit en raunar lést konan áður en Bretar gengu í Evrópusambandið (hvað þá úr því) og ég er nokkurn veginn viss um að afstaða hennar til Brexit hefði stjórnast fyrst og fremst af eiginhagsmunum og í ljósi þess að Blyton var fjármálalegt stórveldi miðað við flesta rithöfunda hefði hún sennilega verið mjög andvíg því. Auðvitað getur verið að nostalgískt nútímafólk dreymi bæði um bækur Enid Blyton og Bretland án útlendinga en sú eftirsjá er væntanlega fremur eftir tímanum milli 1940 og 1960 þegar Bretland var enn heimsveldi að nafninu til en sjálf hafði Blyton enga sérstaka fortíðarþrá, ekki frekar en Jane Austen hafði áhuga á hestvögnum.

Ég held ekki erindi um Enid Blyton vegna þess að ég telji hana einn merkilegasta höfund 20. aldar því að hún var það ekki heldur fyrst og fremst furðu ritfær eins manns barnabókaverksmiðja heldur fremur vegna þess að mér finnst hún áhugaverð, bæði vinsældirnar, ekki síst á Íslandi, og þær hugmyndir hennar sem eru aðallega hennar eigin. Roald heitinn Dahl var ótvírætt betri höfundur og því eðlilegt að höfundar heimsins rísi fremur upp þegar hann er endurskoðaður að sér látnum. Um hann hef ég ekki skrifað grein eins og Enid Blyton þannig að vel má hugsast að hann hafi verið óvenju mikill gyðingahatari eða annað sem hann er sakaður um. Á hinn bóginn þekki ég nógu vel til Roalds Dahl til að vita að úr bókum hans lýsir ekki góðmennska höfundarins og því sætir furðu að einhver telji sig geta „afhjúpað“ hann. Þvert á móti felst gildi verka hans ekki síst í því að hann er frekar andstyggilegur maður fullur af hæðni og illgirni sem gerir hann ekki að verri höfundi.

Ég verð að játa að af öllum undrum nútímans finnst mér einna erfiðast að skilja kröfuna um góðmennsku listamanna enda er það vel þekkt að margir helstu listamenn sögunnar hafa verið mestu skíthælar og varla nokkur þeirra hafði sömu viðhorf til margra helstu álitamála nútímans og ég — kannski er það fyrst og fremst meginstraumsfólk sem getur leyft sér að lesa aðeins höfunda sem eru sammála því. Fyrir mér blasir við að það getur verið fremur heftandi fyrir skilning að taka gamaldags viðhorf úr næstum hvaða gömlu bók sem er. Ekki vegna þess að það megi aldrei breyta bókum — drjúgur hluti minnar menningarneyslu í barnæsku voru endursagnir á 19. aldar skáldverkum fyrir fullorðna og auðvitað má endursegja góða höfunda frá 20. öld líka. En hvað Roald Dahl sérstaklega áhrærir hefur hann lítið gildi ef kvikindisskapurinn væri hreinsaður burt. Eitt það fyrsta sem ég las eftir hann var smásagan „Parson’s Pleasure“ sem fjallar um svindlara nokkurn sem ferðast um í prestsgervi og reynir að ná antíkmunum af sakleysingjum fyrir lítið verð, einhverjir eldri lesendur sáu kannski John Gielgud leika hann í Óvæntum endalokum á sínum tíma. Auðvitað fór illa fyrir falsprestinum og raunar líka verðmætu antíkmublunni sem hann keypti því að það fer alltaf illa fyrir einhverjum í sögum Roalds Dahl, alveg eins og ævintýrunum forðum. Hann var í stuttu máli „ekki næs maður“ eins og krakkarnir segðu og einmitt vegna þess að hann var grimmdarseggur varð hann frumkvöðull í læknisfræði á miðjum aldri þegar hann læknaði konu sína af afleiðingum heilablóðfalls með aðferðum sem sumir jafna við pyntingar. Skilningur hans á mannúð reyndist þar öðruvísi en flestra og allar endurskoðanir á verkum hans sem sleppa því truflandi hljóta að missa af miklu.

En aftur að Enid Blyton og rasískum Vesturlandahöfundum fortíðarinnar. Mín afstaða er sú að þegar fortíðarbækur eru lesnar blasi við að fortíðarviðhorf fylgi með, jafnvel í barnabókum. En aðallega er ritskoðun fortíðarinnar hálf tilgangslaus vegna þess sem indverska manneskjan á netinu benti á, í raun og veru eru Vesturlandabúar nútímans ekki hótinu betri þó að þeir hafi kastað einu og einu orði úr nýlenduhugarfarinu. Það hefur hlutfallslega lítið vægi fyrir uppgjörið við nýlendustefnuna að amast við rasískum orðum úr fortíðinni því að hið raunverulega uppgjör getur aldrei falist í neinu öðru en að Vesturlandabúar (Evrópa og Norður-Ameríka) skili 7/8 af fjármunum og völdum heimsins til allra hinna íbúa hans — ég segi ekki að ég viti hvernig eigi að fara að því en fyrsta skrefið hlýtur a.m.k. að vera að horfast í augu við þá staðreynd að við í þessum tveimur álfum sitjum öll saman á þýfinu. Það bólar aftur á móti lítið sem ekkert á vilja til þess nema hjá litlu broti þeirra sem kalla sig andrasista á Vesturlöndum nútímans. Þannig sýnist mér það krafan hjá flestum í okkar heimshluta (líka yfirlýstum andrasistum) að öll umræða um þessi mál skuli fara fram á ensku sem fyrst og fremst er heimsmál vegna nýlendustefnunnar og á forsendum Bandaríkjamanna. Áberandi er þetta líka þegar lýst er atkvæðagreiðslum í Sameinuðu þjóðunum (burtséð frá innihaldi þeirra sem kann að vera gott og rétt) þar sem lýst er því hvernig tillögur Bandaríkjanna eru samþykktar en hjá sitja eða á móti eru þjóðir sem telja þó meirihluta mannkynsins en hafa ekkert vægi í fréttum. Það heyrist aldrei múkk um afstöðu þjóða í þeim hluta heimsins sem Vesturlönd eru vön á að líta á sem undirskipaðan sér. Jafnvel fólk í svipuðum sápukúlum og ég sem verð daglega vitni að miklum andrasisma á netinu verður sárasjaldan vart við áhyggjur af valdaleysi annarra heimshluta.

Það eru hugsanlega ekki Enid Blyton og Roald Dahl sem eru vandamálið heldur Vesturlandabúi nútímans (ekki síst sá bandaríski) sem ætlar sér að halda sínum hernaðarlegu, efnahagslegu, stjórnmálalegu og menningarlegu forráðum meðan mannkynið lifir, með eða án hálsbindis. Auðvitað er það þó dæmt til að mistakast með einum eða öðrum hætti.

Previous
Previous

Ritdómarnir sem hurfu

Next
Next

… fullur af þjáningu