… fullur af þjáningu
Hvíta lótusblómið er vel þess virði að skrifa um tvöfaldan pistil enda má segja að þáttaröðin sjálf sé á sumarfríshraða sem er notalegur fyrir fólk eins og mig. Seinni syrpan gerist á Sikiley og þangað langar mig að fara helst núna og þar er umhverfið ekki síður fallegt en í Hawaii og tónlistin í þættinum jafnvel enn betri. Fagrar skreytingarnar í kynningu þáttarins einar sér eru ástæða til að horfa á þættina, einkum eftir því sem á líður kynninguna og ýmsar vafasamar myndir fara að koma í ljós.
Sagan færist til Sikileyjar og hin forríka Tanya McQuoid, leikin af Jennifer Coolidge, er mætt aftur á svæðið, aðeins upplitsdjarfari í fyrstu en í fyrri syrpu en lendir þó í engu minni hremmingum. Hún á 90% af góðum setningum þáttarins þó að hótelstjórinn (önnur skemmtilega margbrotin persóna sem á til að vera óheppin í mannlegum samskiptum) steli þeirri bestu þegar Jennifer og maður hennar er að pósa, hann á vespu og hún sem Monica Vitti og spyr: „Hver á ég að vera?“ og sú ítalska spyr „Gurra grís?“ í fullri einlægni og illviljalaus. Annað gott atriði er þegar Jennifer fer á óperuna Madame Butterfly (sem hún tengir sterkt við og flestir áhorfendur skilja hversu viðeigandi það er) ásamt smávöxnum enskum kavalér (hinn frábæri Tom Hollander sem leggur sig fram við að stela senunni í þættinum) og trúir því að konan í næstu stúku sé „drottningin af Sikiley“.
Veslings Jennifer er jafn rugluð og vansæl í þessari syrpu og áður, gerir sér enga grein fyrir eigin forréttindum og reynist að lokum lítt fær um að sjá um sjálfa sig. Það er galdur að láta mann hafa samúð með ríka fólkinu en þó að Tanya sé veruleikafirrt dekurbarn sem auðvitað getur ekki bjargað sér úr neinum háska heldur maður samt með henni. Meðal annarra gesta á Sikiley eru afi, faðir og sonur sem eru farnir að leita róta sinna, greinilega innblásnir af Guðföðurnum. Allir eru kvensamir mjög. Sonurinn er fulltrúi hinnar ungu og vitlausu kynslóðar sem vill vel en gerir lítið gagn og eflaust er kennd við einhvern bókstaf. Hann er stöðugt að reyna að vera siðlegur án þess að nokkur kunni að meta það eða það geri neinum gagn og kynnist tveimur ungum stúlkum sem fara fyrirsjáanlega illa með hann hvor á sinn hátt. Pabbinn er illa haldinn kynlífsfíkill sem vill gera yfirbót en afinn er dæmigerður fulltrúi kynslóðar foreldra minna (sem þau voru alls ekki), segir öllum ævisögu sína, daðrar við allar konur, horfir jákvæðum augum á allt og trúir á reglur sem gera gott úr illu. Þannig telur hann hjónaband sitt afar vel heppnað þó að það horfi ekki þannig við neinum öðrum og er bjartsýnn á að geta fundið fjölskyldu sína á Sikiley án þess að hafa unnið neina undirbúningsvinnu (t.d. að læra fáein orð í ítölsku).
Á hótelið koma líka tvenn hjón sem minna óhugnanlega á alls konar fólk sem maður hefur kynnst og sambönd þeirra eru býsna nákvæm og skynug úttekt á ýmsum tegundum svika, afbrýðissemi og undirferla sem geta átt sér stað í hjónabandi eða milli vina sem eru ekki lausir við keppnisskap. Þetta er fágað og vel gert, annað parið er stíft en telur sig heiðarlegt, hitt er á barmi nihilismans og svolítið siðspillt og við fylgjumst með afbrýðissemi og svikum flakka milli þeirra; hver einasti morgunmatur, kvöldmatur, vínsmökkun eða sólbað eins og fíngerður leikþáttur þar sem leikararnir eru stöðugt að bregðast við nýjum aðstæðum þó að ekkert hafi í raun gerst. Í lokin fannst mér hin að því er virtist yfirborðskennda Daphne klókust þeirra enda eina aðalpersónan sem við fáum að vita strax í byrjun að deyr ekki í þessum þætti. Fátt kemur henni úr jafnvægi, hún er alltaf sveigjanleg, aldrei hissa og hvað sem gerist þá nær hún að hagræða sér í nýja stöðu. Hún er dæmi um manneskju sem alltaf lendir á fótunum, nútímaljóskuútgáfan af hinum klassíska klækjaref fyrri aldar bókmennta.
Í einum seinasta þættinum ræðir hrjáð ung stúlka sem fylgir Jennifer við ungan breskan mann sem hún hefur hitt og virðist vera hrifinn af henni. Stúlkan er illa haldin af dæmigerðu volæði ungu kynslóðarinnar sem er sannarlega áberandi í orðræðunni á samfélagsmiðlum og annarri síbylju ef ekki alltaf í hegðuninni. Ungi maðurinn sem er breskur Selfossplebbi sem talar án þess að hreyfa munninn lýsir þá þeirri skoðun að heimurinn sé samt fjandi góður og aldrei hafi verið betra að lifa í sögunni en nú sem er hinn sæmilegasta punktur óháð hinu sanna eðli mannsins sem afhjúpast síðar. Sannarlega vantar ekki fegurð í Hvíta lótusblómið: fallegt fólk, falleg föt, fallegt landslag og falleg hús.
Að einhverju leyti finnst manni Hvíta lótusblómið ná furðuvel utan um hina miklu þjáningu allsnægtarkynslóðarinnar á Vesturlöndum sem þrátt fyrir allan stéttamun innan hins vestræna heims er allur sem einn í forréttindabólu (en kannast illa við það). Þrátt fyrir öll sín sápuóperueinkenni er þessi verðlaunasjónvarpsþáttaröð þannig hinn ágætasti heimsspegill.