Heimurinn er fallegur en …
Í febrúar kom sjónvarpsþátturinn Hvíta lótusblómið á Sjónvarp Símans og ég gerði hlé á öðru áhorfi til að sjá þetta verðlaunaverk og horfði á alla þrettán þættina í tveimur syrpum á þremur dögum og aftur fyrir nokkrum dögum. Ein ástæða fyrir forvitni minni var að í einum af þeim 16 Survivor-syrpum sem ég hef séð (ríflega þriðjungur af dótinu) keppti jafnaldri minn Mike White sem er handritshöfundur og leikstjóri þessa þáttar og ég var forvitinn um hann þar sem í keppninni sást gjörla að maðurinn væri bráðgreindur – en ég hafði ekki áttað mig að hann væri eins brilljant og raun ber vitni. Hvíta lótusblómið er nefnilega meistaraleg (jafnvel sígild) úttekt á tilfinningalegum áhrifum sumra helstu andstæða og hugmynda 21. aldar frá ranghverfusjónarhorni sem stundum minnir á 19. öldina og formið er nýtt til hins ítrasta: tónlist Cristobal Tapia de Veer, íðiflögur kvikmyndataka og leikurinn í óslítanlegu samfloti næstum eins og hjá Wagner. Sjálft handritið er þó best og minnti mig stundum á eigin skrif þó að ég þykist ekki hafa náð sömu hæðum. Það sameinar uppreisnargirni en jafnframt predikunarleysi, gráglettinn húmor, spennu, mikla erótík og nákvæma og nærfærna úttekt á innilegum samböndum. Þó að Hvíta lótusblómið sé nafn á hótelkeðju á ég stundum erfitt með að stilla mig um að sjá eitthvað 19. aldarlegt við lótusblómið hans, eins og Mike White sé Novalis nútímans (eða Tennyson lávarður sem fær orðið í einum þættinum) þó að stundum minni hann raunar fremur á Balzac.
Þátturinn gerist á lúxushóteli kenndu við lótusblómið; ég mun fjalla um seinni syrpuna á morgun en sú fyrri gerist á Hawaii og þar er hóteliðnaðurinn skilgreindur sem hluti af nýlendustefnunni á sannfærandi hátt en þó ekki settur fram einfeldingslegur rammi um hvernig skuli eiga við hana, umfjöllunin er laus við faríseahátt netsins. Aðalpersónurnar eru annars vegar starfsmenn hótelsins sem flestir eru ástralskir eða frá Hawaii en hins vegar forríkir Bandaríkjamenn í þremur hópum. Allar þrjár sögurnar eru áhugaverðar. Besti fulltrúi hins ríka og vansæla vestræna nútímamanns og stjarna þáttarins er Tanya en hana leikur Jennifer Coolidge sem ég sá fyrst í American Pie (hin alræmda „móðir Stiflers“), dásamleg leikkona sem hertekur hlutverkið svo gersamlega að manni finnst að ekki nokkur önnur leikkona hefði getað gert því viðlíka skil. Hún er mætt á svæðið með ösku móður sinnar, er þreytt og mædd þrátt fyrir öll auðævin og líður um svæðið eins og í þoku en þess á milli greinir hún sjálfa sig linnulaust. Hátindur þáttarins er þegar öskuathöfnin mistekst og dóttirin dettur óvænt ofan í æðisgengið uppgjör við móðurina sem er frámunalega skoplegt og sorglegt (engin furða að það minnir einn viðstaddan á Bette Davis).
Önnur mikilvæg persóna er leikin af Steve Zahn sem ég man eftir frá því að hann var ungur leikari fyrir 30 árum. Þetta er eiginmaður sem er barnslega háður eiginkonu sinni, er upphaflega hræddur við krabbamein (en konan furðu róleg), kemst síðan að því að hann þekkti föður sinn ekki til fulls. Þá spilar hann alveg út og fer meðal annars með bestu setningu þáttarins algerlega úr öllu samhengi á barnum („Leprosy is no joke“). Persónan vill gjarnan vera góður eiginmaður og góður faðir en sjálfhverfan truflar hann þannig að í staðinn verður hann hálfgerður húskross sem eyðileggur allt í kringum sig, a.m.k. þangað til hann fær tækifæri til að vinna „hetjudáð“. Illbrúanlegt kynslóðabil er milli hjónanna og barna þeirra (en annað mætir með „vinkonu“ með sér) því að þau síðarnefndu eru dæmigerð ungmenni nútímans, full af siðferðislegu oflæti og telja sig standa með fátækum og öðrum kynþáttum þó að ekki risti það djúpt hjá neinu þeirra. Satt að segja er þessi fjölskylda samsafn af fólki sem erfitt er að hafa samúð með en þó nær maður að tengja við þau öll í lokin nema kannski helst stelpuna. Sonurinn missir símann og tekur þá stakkaskiptum sem ég veit ekki hversu trúverðug eru (kannski draumur hins hrakta nútímaforeldris?). Hann er í upphafi illa kúgaður af systur sinni og föður en gerir misheppnaða uppreisn sem smám saman þróast í betur heppnaða uppreisn.
Ekkert af þessum gestum er venjulegt fólk vegna auðæfa sinna og mun einfaldara að skilja starfsliðið sem smám saman dregst út í samskipti við gestina og fer almennt fremur eða mjög illa út úr þeim þó að brýnt hafi verið fyrir því að vera ósýnilegt. Þar er fremstur í flokki hótelstjórinn Armond sem er ekkert líkur Basil Fawlty en veitir honum harða samkeppni um að verða eftirminnilegasti hótelstjóri sjónvarpssögunnar (já, og vinsamlegast ekki gera nýja syrpu af Hótel Tindastól, takk!!!!). Armond virðist í fyrstu fagmaður í fingurgómana en brátt nær leiðinlegur og erfiður gestur að draga hann út af sporinu og ofan í flöskuna og þá fer hann að minna ei lítið á Bokka úr Jónsmessurnæturdraumi sem spilar með mannfólkið ásamt sinni álfaherdeild. Það var aftur á móti þrautin þyngri að hafa samúð með gestinum leiðinlega, þeim annars myndarlega manni (og konunni sem var svo óheppin að giftast honum) en þó hefur náunginn sérkennilega lógík svolítið í anda meistara Altungu úr Birtingi Voltaire og verður heillandi á köflum, á milli þess sem hann er viðþolslaus af eitraðri smámunasemi og belgingslegri minnimáttarkennd og að lokum fremur hann ódæðisverk og kemst upp með allt saman, á meðan starfsmaður hótelsins fremur smáglæp manaður til þess af einum gestanna sem þykist vera að gera honum greiða og situr í súpunni. Ríka fólkið er hafið yfir lögin í bandaríska glóbalismanum og erfitt að mótmæla því.