Sjáðu sverðið!

Eddukvæði verða áberandi á þessari vefsíðu næstu mánuði vegna þess að ég tek þátt í þýðingu þeirra núna eins og áður hefur verið drepið á. Að sjálfsögðu ljóstra ég þó engu upp um það æsispennandi verk og lesendur verða að bíða spenntir til ársins 2025. En við þýðum í handahófskenndri röð sem fer eftir því hvað okkur langar til að gera og á eftir Þrymskviðu komu Skírnismál sem einnig fjalla um samskipti kynjanna og glímu jötna og guða. Einnig þar sýna guðirnir jötnum litla miskunn og er þó ástin með í spilinu í Skírnismálum (sem Gerður Kristný hefur nýlega gert fræg að nýju en það er önnur saga).

Það mætti kalla kvæðið ástarsögu eða brúðkaupsleitarsögu eða jafnvel sögu um kynferðisofbeldi en sú saga er ekki kennd við þann ástfangna eða viðfang ástarinnar heldur sendiboðann Skírni sem hefur sitt fram með hótunum og bölvunum – fellur vel að nútímanum þar sem fólk er hætt að spyrja kurteislega en krefur alltaf svara í staðinn í von um að sýnast töff en ekki bara þeir öskurapar sem það er. Drjúgur hluti kvæðisins er særing eða bölvun sem Skírnir flytur yfir Gerði þegar hún vill ekki ganga að eiga Frey. Meðal annars veifir hann sverði sínu og spyr „Sérðu þennan mæki, mær“ og nær notkun fallískra tákna í íslenskum skáldskap þar hámarki strax á miðöldum.

Í upphafi kvæðisins sest guðinn Freyr í Hliðskjálf og verður ástsjúkur. Hann sést svo ekkert fyrr en í kvæðislok þegar hann fær tiltölulega jákvæð svör frá Skírni en er samt ekkert sérlega ánægður og finnst hart að bíða Gerðar í níu nætur. Hætt er við að tístverjar myndu kalla hann fyrsta „incelinn“ sem telji sig eiga tilkall til kynlífs eins og guð (hann var auðvitað guð en tístið trúir ekki á guði) en ákveðna samúð hlýtur þó fólk sem man eigin ástarþrá að hafa með óþolinmæði hans. Rómantískar túlkanir á þessu kvæði segja þó líklega meira um viðtakendur en kvæðið sjálft. Freyr fer jú ekki að leita Gerðar heldur sendir skósvein sinn og hann fylgir bónorðinu eftir með hörku og fjölkynngi.

En hver er Skírnir, hinn norrænni Hermes? Hvað fáum við að vita um drussa annað en að hann er trúr sínum meistara og dregur ekki af sér við að útvega honum það sem hann langar í? Ýmis máltæki forn og ný eru á því að ekki skuli kenna sendiboðanum um neitt en Skírnir er óneitanlega ansi ákafur í sínu erindi. Þannig beinir þetta forna kvæði sjónum okkar að sjálfum miðlinum, næstum eins og Marshall McLuhan hefði ort það.

Previous
Previous

Heimurinn er fallegur en …

Next
Next

Hestavíg