Hestavíg
Ég var forvitinn að sjá kvikmyndina They Shoot Horses, Don’t They? (1969) sem vann fjölmörg óskarsverðlaun á sínum tíma en var sýnd í íslenskum bíóhúsum undir heitinu Skjóta menn ekki hesta? Þetta er í stuttu máli enn ein fræg mynd sem ég hef aldrei séð og var því skotmark í janúarleit minni að frægum ósénum kvikmyndum. Í henni léku m.a. Michael Sarrazin, Gig Young, Susannah York, Red Buttons og svo auðvitað sjálf Jane Fonda og hún fjallar um ansi áhugavert efni sem eru maraþondanskeppnir á kreppuárunum. Auk heldur er hún gerð eftir bók sem yfirleitt boðar gott, skáldsögu frá 1935 eftir Horace McCoy (1897-1955) sem mér er annars ókunnur.
Sjónbeinir myndarinnar er Robert Syverton (Sarrazin) sem að lokum fremur glæp sem mér fannst nú engar sérstakar forsendur fyrir en auðvitað hef ég aldrei tekið þátt í 1500 klukkutíma dansmaraþoni. Myndin er að sönnu áhugaverð en ég reikna ekki með að horfa á hana aftur, til þess er hún of niðurdrepandi, efnið of sértækt og fjarri raunveruleika nútímamannsins sem stundum er lítið betur settur efnahagslega en fólkið í myndinni en býr aftur á móti við allsnægtir af afþreyingu. Ég var ekkert sérstaklega hrifinn af persónusköpun myndarinnar þó að leikarar stæðu sig vel og ekki síst Gig Young sem fékk óskarsverðlaun fyrir hinn demónska dansstjóra.
Kannski gerði ég myndinni óleik með því að horfa á hana of miklum raunsæisaugum. Hugsanlega er hún öll táknræn og fjallar jafnvel einmitt um afþreyingu. Áhorfendurnir að keppninni eru að mörgu leyti áhugaverðari persónur en keppendurnir, m.a. eldri konan sem ákveður snemma að halda með parinu sem mest er í sjónmáli. Þó að ég horfði á myndina til enda fannst mér vanta framvindu, eftir fyrsta klukkutímann var ég farinn að þreytast verulega, þó ekki jafn mikið og veslings fólkið á dansgólfinu. En um þessa kvikmynd gildir þó hið sama og allt annað sem ég segi frá á þessu bloggi, ég hefði ekki viljað sleppa áhorfinu og hún styður þá hugmynd að ef fólk vill skilja hið sanna ástand heimsins á það að horfa sem mest á (ekki síst gamlar) bíómyndir en sleppa fréttum alfarið.