Julien og lúxushóran

Þegar ég var barn sat ég ævinlega límdur við þáttinn „Sjónvarp næstu viku“ og fyrir vikið man ég eftir ýmsu sjónvarpsefni sem ég horfði þó ekki á til enda. Þar á meðal var frönsk mynd sem hófst á tilraun unglingspilts til að stela bíl sem lauk með því að hann var handtekinn. Mig minnir að ég hafi fengið að horfa á myndina en hún reyndist óbarnvæn og ég vissi ekkert hvað hún hét, en sannur rannsakandi finnur allt (enda vinn ég við rannsóknir) og ég komst að því að lokum að þessi unglingur var leikinn af hinum franska Pascal Sellier. Myndin sem ég sá í gamla daga fannst þó ekki á Youtube en í staðinn horfði ég á myndina Vasaástmaðurinn (L’Amant de poche) sem kom út sama ár og þar er Pascal Sellier í aðalhlutverki.

Myndin er gamanmynd en þá meina ég frönsk gamanmynd en í þeim eru stundum engir brandarar, aðeins skondnar aðstæður sem lýst er með samúð, hlýju og smá íronískri fjarlægð. Julien er 15 ára skólasveinn (Sellier var 18 ára þegar hann lék í myndinni) sem kynnist glæsilegri eldri konu. Hún reynist vera escort (en Íslendingar notuðu orðið „lúxushóra“ á þeim tíma; sennilega sama fólkið og ákvað að kalla bidet „rassabað“) og Julien þarf þá að glíma við andstöðu foreldra sinna, eigin afbrýðissemi og fordóma gegn lúxushórum.

Eins og þið heyrið er þetta einstaklega frönsk flétta og jafnframt mjög 8. áratugarleg því að 15 ára drengir sem sofa hjá kynlífsverkafólki eru alveg dottnir úr tísku, jafnvel sem grín. Sagan reynist byggð á verðlaunaskáldsögu eftir Voldemar Lestienne sem virðist lítið hafa skrifað eftir að hann fékk verðlaunin og sagan var kvikmynduð. Ég á erfitt með að meta réttmælti þess þar sem myndin er með amerísku tali á Youtube og ég gat því aðeins horft á hana með forvitni en ekki beinlínis notið hennar sem listaverks. Það sem mér fannst einna forvitnilegast er hversu ódæmigerð hetja Julien er og sennilega er það ástæðan fyrir því að eldri konan tekur hann sér til fylgilags. Einnig er hún góð heimild um þátt í hugarfari 8. áratugarins sem er líklega með öllu horfinn núna.

Previous
Previous

Hestavíg

Next
Next

Ban/nvænar kenndir