Ban/nvænar kenndir

Nýlega skilaði ég útgefanda mínum nýju skáldsagnahandriti sem alltaf er átak en líka stór áfangi hjá höfundi sem hefur dvalið um hríð meðal ókunnugs fólks og hugsað um það meira en vini og kunningja.

Ég hef undanfarin fimm ár sent frá mér fimm sögur um glæp sem ég hef verið býsna sáttur við en sumir vinir mínir segjast ekki vilja lesa vegna þess að þær eru taldar vera formúlubókmenntir. Þó er hver annarri ólík og að mínu mati eru reglur formsins góður og gagnlegur rammi utan um það sem mestu máli skiptir sem eru beiting tungumálsins, persónusköpunin og þær tilfinningar sem fengist er við. Það hefur lesendum enn fremur líkað best og þess vegna hef ég tekið þann kost að hafa þessi atriði jafnvel enn meira í forgrunni í sjöttu bók. Glæpurinn er á sínum stað en snýst hvorki um fjarvistarsannanir né ókunn tilefni heldur er rökrétt afleiðing af glímu persónanna hverrar við aðra. Meginumfjöllunarefnið þykir eflaust einhverjum groddalegt en mér finnst það umhugsunarvert og umfjöllunarvert – vonandi lesendum einnig.

Þetta er líka fyrsta sagan um glæp sem gerist í sveit, á prestsetri nokkru þar sem kirkjan er ekki lengur í notkun, bóndinn hættur búskap og í staðinn býr á staðnum fólk úr Reykjavík og þar er rekið gistihús. Ekkja prestsins er nýlátin og reynist skyld Kristínu lögreglukonu sem fer á prestsetrið til að kynnast föðurfjölskyldu sinni betur en í seinustu bók var áherslan á móður hennar. Þetta reynist örlagaför í fleiri en einum skilningi og það sem kannski skiptir mestu máli er tómið í lífi Kristínar vegna fjarveru annars foreldrisins og hvernig hún fyllir upp í það. Eros, dauðinn og fegurðin eru kannski þema í bókinni en líka hvernig manneskja sem telur sig fyrst og fremst trúa á hið góða og fagra og vill veita gleði í heiminn getur samt skilið eftir sig andlegar brunarústir.

Bókin á sér forsögu í ófullgerðri skáldsögu sem átti ekki að vera glæpasaga og lögregluteymið mitt var ekki með í og í þá bók sótti ég nokkrar persónur sem ferjuðust vel yfir í nýtt umhverfi, ágætlega tengdar efnislega við meginumfjöllunarefnið. Þetta er hluti af starfi höfundarins, sjá flöt á að sameina verk og nýta vinnu sem ekki hefur skilað sér í heilli fulllokinni útgáfuhæfri skáldsögu. Mér fannst ég líka geta nýtt tóninn úr þeirri sögu til að hafa annan brag á Prestsetrinu en fyrri bókum í flokknum. Sjálf Agatha Christie skrifaði líka bækur undir höfundarnafninu Mary Westmacott og hafa ekki þótt jafn vel heppnaðar en í nokkrum tilvikum sameinaði hún Westmacott-tóninn og bætti við Poirot og þær bækur (The Hollow, Sad Cypress, Taken at the Flood, Five Little Pigs) eru meðal hennar bestu.

Er „saga um glæp“ að nálgast endastöð? Ekki meðan mér detta ný átök í hug. Ég hef aldrei viljað gefa upp hversu margar bækurnar áttu að vera ef vera kynni að mér entist ekki hugmyndaflugið til að komast alla leið en hingað til hefur mér að eigin mati tekist vel að forðast endurtekningar. Ég er marglyndur höfundur með ríka þörf fyrir að reyna mig við ýmis form. Eins finn ég fyrir ákveðinni óþreyju og uppreisnargirni gagnvart formreglum sem eru tilfinningar sem ég held að flestir höfundar þekki. Ég held að sú óþreyja skili sér í Prestsetrinu sem ég vona auðvitað að falli í hið vel þekkta kram sem listin þarfnast þess stundum að falla í.

Previous
Previous

Julien og lúxushóran

Next
Next

Strákar eru bestir