Strákar eru bestir
Ég gæti verið óheiðarlegur og skrifað eingöngu um verðlaunamyndirnar sem ég sá í janúar til að þið bæruð virðingu fyrir mér en í mér býr lágkúrufól og eins og áður kom fram henti ég inn afþreyingarmyndum sem höfðu vakið forvitni mína og ein slík B-mynd var Toy Soldiers sem ég held að hafi ekki einu sinni verið sýnd í bíóum hér en var gerð árið 1991 og skartar jafnöldrum mínum Sean Astin og Wil Wheaton í aðalhlutverkum — hér er komið svarið við spurningunni um hvað sameini Tolkien og Star Trek. Tilgáta mín var því sú að hér væri á ferð hið ánægjulegasta drasl og hún stóðst. Það merkilega er að ekki eingöngu sígildar myndir verða betri með tímanum heldur á það stundum við um B-myndir líka. Drasl æsku minnar er og verður mitt drasl.
Toy Soldiers er gerð um það leyti sem eiturlyfjabaróninn Noriega fv. leiðtogi Panama var helsti óvinur Bandaríkjanna en varla kannast unga kynslóðin við hann — eðli paranojunnar er að „hættulegustu menn í heimi“ gleymast stundum hratt. Átök í Suður-Ameríku leiða til þess að harðsvíraður en greindarlegur hryðjuverkamaður ákveður að hertaka skóla fyrir forríka óknyttadrengi í Bandaríkjunum og taka sem gísl son dómarans sem á að dæma föður hans fyrir eiturlyfjasölu. Amerísk yfirvöld hafa séð þetta fyrir og fjarlægt drenginn úr skólanum en þar sem þessi stofnun er smekkfull af sonum forríkra manna hugkvæmist skúrkinum að taka þá í gíslingu í staðinn. Þar eru fremstir í flokki hrekkjalómar leiknir af Astin og Wheaton sem hafa hingað til látið nægja að hrella kennara og skólastjóra eða yfirkennara (sem er leikinn af gamla brýninu Louis Gossett Jr. og ég kalla hann gamla brýnið vitandi að ég er næstum á sama aldri núna) en ákveða núna að beita sömu ærslabelgjahugkvæmni gegn hryðjuverkamönnunum.
Þessi flétta er vitaskuld fáránleg en erfitt að hafa ekki gaman af. Það er engu líkara en höfundar myndarinnar hafi haldið mikið upp á Die Hard, Police Academy og The Goonies og viljað sameina þær allar í einni kássu. Eins og sjá má á lýsingunni eru alls engar konur í myndinni sem gerir hana að enn betri heimild um strákaparadísina sem fortíðin er. Hugsanlega áttu þær samt að horfa á myndina því að strákarnir eru stöðugt valsandi um á nærfötunum einum og eiga allar sínar helstu rökræður um hvernig skuli tækla hryðjuverkamennina fáklæddir.
Í miðri mynd ákveður persónan sem Wil Wheaton leikur að fremja sjálfsmorð með því að þrífa byssu af hryðjuverkamönnunum og reyna að skjóta sér leið út. Þetta er alls ekki undirbyggt og fremur fáránlegt jafnvel miðað við lógík ævintýrisins í heild og væri til lýta ef hægt væri að taka myndina alvarlega. Sean Astin lifir þó af, kemst í samband við yfirvöld og í sameiningu ráða yfirvöldin og óknyttadrengirnir niðurlögum glæpamannanna með snjöllum brellum sem minna eigi alllítið á Home Alone. Boðskapur myndarinnar er einfaldlega sá að strákar séu bestir og kannski er hún einmitt frábær skemmtun vegna þess að hún gengur upp í lokuðum fantasíuheimi sem núna er sennilega farinn inn í tölvurnar (og spillir þar ungum drengjum) en þá var á hvíta tjaldinu. Ekki beinlínis góð bíómynd en mikilvæg menningarminj.