Morgunlestur

Líklega eru um 14 ár síðan ég gafst endanlega upp á íslensku dagblöðunum. Ég sagði upp Morgunblaðinu eftir 18 ára áskrift vegna þess að það var skorið við trog með nýjum ritstjóra (þetta var áður en Davíð settist þar að) og reyndi í staðinn að lesa auglýsingasnepilinn en gafst fljótt upp á því líka; þar voru ekki einu sinni minningargreinar. Til þess að hafa eitthvað að lesa á morgnana gerðist ég áskrifandi að The Times Literary Supplement og síðar London Review of Books og að lokum New York Review of Books vegna þess að ég trúi á alvöru blöð. Þau hafa dugað mér síðan en þess á milli tek ég skáldsögur með mér og les á morgnana. Frelsi mitt frá íslenskum fjölmiðlum hefur verið til góðs því að lífið er of stutt fyrir lélegt efni.

TLS og LRB hafa ekki aðeins verið iðulega skemmtileg aflestrar heldur iðulega góð leið til að uppgötva höfunda sem ég vissi ekki af en eru að komast í tísku, m.a. John Williams (ekki tónskáldið), Elizabeth Taylor (ekki heldur sú sem þið þekkið, sjá grein fyrir jól), Barböru Pym og Shirley Jackson. Eins las ég þar fyrst um höfunda sem ekki sáust á Íslandi fyrr en síðar, t.d. Elenu Ferrante og Knausgaard. Stöku sinnum eru í þessum blöðum greinar um íslenska höfunda en sjaldan þó. Miðjan er Bretland og breska heimsveldið sem gerir ekkert til ef maður áttar sig á því. Fyrir nokkrum árum voru bæði blöðin (jafnvel íhaldsblaðið TLS) á fleygiferð úr kalda stríðinu en með falli Trumps og Úkraínustríðinu hefur það breyst á ný.

Greinarhöfundar hafa það fram yfir okkur sem skrifuðum um íslenskar bókmenntir áður en þær voru gerðar útlægar úr fjölmiðlum að eiga ekki á hættu að hitta höfundinn daginn eftir. Þeir eru iðulega hnyttnir og kvikindislegir. Næstum í hverju tölublaði finnur maður eina virkilega vel orðaða setningu og sumar þeirra lifa með manni áfram. Ameríska blaðið er ekki alveg jafn hnyttið og fullupptekið af tilteknu trölli með t í nafninu en þó góð viðbót.

Previous
Previous

Strákar eru bestir

Next
Next

Rússíbanareið