Rússíbanareið
Kvikmyndin Rollercoaster hét Skriðbrautin á íslensku og var sýnd í bíóhúsum jólin 1977. Ég sá hana ekki og varð ekki forvitinn fyrr en ég fór á tónleika með Lalo Schrifin í Háskólabíói árið 2004 en þar var stefið úr henni leikið. Af einhverjum ástæðum fór hún því á listann yfir myndir sem mig langaði til að sjá og nógu mikið til að ég léti mig hafa það að horfa á hana á tölvunni. Þetta er samt ekki óskarsverðlaunamynd heldur spennumynd um ungan mann sem gerist hryðjuverkamaður og kemur fyrir sprengjum í skriðbrautum eða rússíbönum skemmtigarða. Hann er síðan eltur af öryggiseftirlitsmanni og FBI-löggu en þessi þrjú hlutverk eru í höndum Timothy Bottoms, George Segal og Richard Widmark sem aldrei þessu vant er ekki bófinn. Konur sjást aðeins í aukahlutverkum sem eiginkonur og dætur og auðvitað farþegar skriðbrauta.
Ég held að aðdráttaraflið við þessa mynd hafi verið að 8. áratugurinn er hér lifandi kominn í fatnaði og hárgreiðslum en þar fyrir utan er þetta fyrst og fremst haganlega gerð spennumynd. Óvætturin í myndinni er mikið á sviðinu en hann sækist eftir peningum og er að öðru leyti ekki skýrður frekar. Myndin er verkfræðilegs eðlis og snýst um hvernig eigi að stöðva sprengjumann, óháð tilefni eða forsendum hans. Eftirlitsmaðurinn er hetjan vegna þess að það er hans hlutverk að stöðva svona menn.
Annað sem er óvenjulegt við myndina er sögusviðið: fáar bíómyndir gerast svona mikið í skemmtigörðum og engir slíkir eru til á Íslandi, a.m.k. ekki af þessari stærð. Eins og í Kjamma (vinsælustu mynd ársins 1975) snýst hér allt um 4. júlí en þá á mikil skriðbraut að hefja sinn feril í stórum kalifornískum skemmtigarði. Þar ætlar sprengimaðurinn að láta til sín taka og lög og regla þurfa að stöðva hann. Myndin þótti ekkert sérlega vel heppnuð á sínum tíma og fékk engin verðlaun en eitthvað við hana höfðaði til mín, kannski hve einföld hún er og laus við óþarfa.