David Niven á gistihúsi
David Niven var hluti af bernsku minni vegna þess að hann lék í Bleika pardusnum, Byssunum í Navarone og fleiri stórmyndum en ég hafði aldrei séð óskarsverðlaunaframmistöðu hans í Separate Tables (1958) fyrr en ég leitaði hana uppi á netinu nú í janúar. Myndin kom mér á óvart, ekki aðeins vegna þess að hún er svarthvít en svo fjallar hún um samfélag sem ég vissi ekki að væri til fyrst þegar ég heyrði hennar getið, hóp fólks sem býr á gistihúsi með ókunnugum og á það eitt heimili sem verður minniheimur eða samfélagsspegill leiksins. Myndin er gerð eftir leikriti Terence Rattigan, tekin á Englandi og aðallega með breskum leikurum og er kannski eitt af fyrstu tilvikunum um Hollywoodinnrás Breta sem síðan setti svip sinn á 7. áratuginn.
Í myndinni er David Niven í hlutverki majors nokkurs sem er alls ekki sú stríðshetja sem hann þykist vera og er afhjúpaður af dagblaði (sem hann reynir að fela á gistihúsinu) sem dæmdur káfari. Eldri kona, frú Ralton-Bell, krefst þess að svikaranum og káfaranum verði vísað á dyr og stefnir saman fundi annarra gesta gegn honum. Útlegð hans er samþykkt en síðan heykjast gestirnir á þessu, frenjan er skilin eftir auðmýkt en dóttir hennar hefur verið áhugasöm um majorinn þar sem þau eru bæði feimin og vandræðaleg í samskiptum. Þessi saga virðist í fljótu bragði falla frekar illa að MeToo-hreyfingunni en þó kannski ekki svo herfilega. Fram kemur að aðalástæðan fyrir því að majorinn er dæmdur er að hann á lítið undir sér og var enginn Weinstein heldur fyrst og fremst klaufi í að nálgast konur, er kannski dæmdur harðar en verri syndarar. Maður skilur hrifninguna á Niven því að hann er hér að leika mann sem langar til að vera eins og mennirnir sem Niven var vanur að leika en þarf að viðurkenna að hann er minniháttar.
Í leikritinu snerist hin sagan um drykkfelldan þingmann og fráskylda konu hans og voru þau í upphaflega sviðsverkinu leikin af sama fólki og fór með hlutverk majorsins og feimnu konunnar. Í myndinni er þessu breytt til að koma að Hollywoodstjörnunum Burt Lancaster og Ritu Hayworth en þau mega sín lítils gegn bresku leikurunum sem fara með öll hin hlutverkin og ég stóð mig að því að bíða eftir að senunum með ameríska parinu lyki. Kannski fólst sögulegt mikilvægi myndarinnar í að sannfæra Hollywood um að breskir leikarar væru upp til hópa betri en bandarískir?
Fyrir utan David Niven skarar Wendy Hiller fram úr í myndinni sem gistihúsaeigandinn sem þvert á stemminguna á gistihúsinu vill ekki dæma gestina og reka burt þá ósiðlegu. Hiller er ekki stöðluð fegurðardís en setti svip sinn á ýmsa breska sjónvarpsþætti sem ég sá í æsku. Ég hefði ekki viljað missa af því að sjá loksins þessa mynd þó að hún sé augljóslega leikrit og hugsanlega áhugaverð fremur en skemmtileg nema á köflum.