Viðkvæmar og veraldarhrjáðar Vassarstúlkur
Kvikmyndin The Group var frumsýnd árið 1966 og fjallar um átta stúlkur úr Vassar-skólanum, gerð eftir skáldsögu Mary McCarthy frá 1963. Þá bók fann ég einhvern tímann á bókasafni og las og nú er ég búinn að sjá kvikmyndina sem þótti góð á sínum tíma og er að sönnu áhugaverð vegna þess að fáar kvikmyndir fjalla um átta ungar konur sem hver lendir í eigin ævintýrum – þetta hljómar fremur eins og langvinnur sjónvarpsþáttur – en ævintýrin eru ekkert merkilegri en svo að ein giftist sífullum rithöfundi, önnur missir fóstur, þriðja fær vinnu í bómenntaheiminum, fjórða heldur við giftan mann, fimmta flytur til Arizona og sjötta reynist vera lesbísk. Allar eru leiknar af ungum leikkonum frá 7. áratugnum, m.a. Candice Bergen og Jessicu Walter úr Arrested Development. Burt úr Löðri birtist í aukahlutverki sem kaldhæðinn listmálari og J.R. úr Dallas er misheppnaði höfundurinn.
Það sem mér finnst áhugaverðast við myndina er hvernig hún fylgir engum lögmálum um hvað sé athyglisvert eða spennandi. Persónurnar eru margar og það tekur drjúgan tíma að þekkja þær í sundur, hvað þá að muna hver hefur haldið við hvern. Það sem þær lenda í er ekki endilega merkilegt fyrir aðra en þær sjálfar en þó er myndin á sinn hátt eftirminnileg (ég sá hana fyrir rúmum mánuði) og virkar sem eins konar mósaíkmynd um hvað beið ungra stúlkna sem útskrifuðust úr fínum skóla upp úr 1930. Það eru þannig séð hversdagslegir hlutir en getur verið áhugavert á þann hátt sem lífið og fortíðin eru. Líka óöryggið sem þær eru allar fullar af nema lesbían sem kynnist að lokum franskri greifynju.
Kannski var Mary McCarthy einfaldlega Annie Ernaux síns tíma og skrifaði um líf sitt eins og það var. Hún gekk sjálf í Vassar og útskrifaðist árið 1933 og lifði síðan áhugaverðu lífi í bókmenntum og pólitík. Hún og skólasystur hennar giftust ömurlegum mönnum af því að þeim fannst þær eiga að giftast, héldu við aðra ömurlega menn af því að þeim fannst þær eiga að lifa lífinu og gerðu sitt besta í þeim störfum sem þeim buðust. Mary sjálf giftist misheppnuðu leikskáldi en það var aðeins fyrsti eiginmaðurinn af fjórum. Þar að auki var hún vinkona Hönnu Arendt og bréf þeirra hvorrar til annarar hafa verið gefin út í frábærri bók.
Kannski er það út af þeirri bók sem mig langaði til að lesa skáldsöguna The Group og síðar horfa á myndina sem reyndist forvitnileg þrátt fyrir að fylgja engum afþreyingarlögmálum.