Meryl og manndrápsvoffinn

Ein youtubemynd sem ég gróf upp í janúar heitir A Cry in the Dark (1988) og í henni lék sjálf Meryl Streep og fékk óskarstilnefningu fyrir (áttundu af 21 tilnefningum hennar til þeirra verðlauna). Ég var að vonum forvitinn um þá mynd enda kemur frasinn „the dingo’s got my baby“ fyrir sem varð frægur í menningunni í minni æsku (myndin heitir raunar Evil Angels en óskarstilnefningin var fyrir hitt heitið sem var notað utan Eyjaálfu). Í janúar sá ég hana sem sagt að lokum og naut þess að sjálfsögðu að hafa lesið um málið á sínum tíma og auk heldur nýlega séð heimildarmynd um Lindy Chamberlain sem Meryl leikur í myndinni.

Naut er samt kannski ekki rétta orðið. Í raun fannst mér myndin ekki skemmtileg og heimildarmyndin sem ég hafði áður séð (Lindy Chamberlain: The True Story, 2020) eiginlega miklu betri. Nýlega sagði ungur maður mér að hann vildi mun fremur heimildarmyndir en leiknar og það er einkennilegt að heyra en þó skil ég það næstum, t.d. í þessu tilviki. Auðvitað var flott hjá Meryl að ná áströlskum hreim en hálfu skemmtilegra að heyra alvöru Ástrali beita hreimnum. Fyrir utan sjálft atvikið sem er sviðsett í myndinni eru þetta endalaus réttarhöld og voru eiginlega áhugaverðari í heimildarmyndinni. Þar var líka rætt við Lindy sjálfa og hún er ansi sérstök kona sem upplýsti m.a. að hún hefði svartan húmor og gerði enga athugasemd við alla „a dingo ate my baby“ brandarana. Viðurkenndi að hún hefði líklega hlegið hæst að þeim sjálf ef hún stæði utan við málið.

Þetta var auðvitað vandamálið á sínum tíma, Chamberlain-hjónin voru öðruvísi og sérstaklega hún og þau sýndu ekki sorgarviðbrögðin sem fólk vildi. Þar að auki voru þau aðventistar og áttu til að ræða trú sína við fjölmiðla og viðbrögð almennings voru eðlilega að þetta væri stórskrítið par og til alls líklegt. Meryl Streep og Sam Neill eru næstum of sympatísk í samburðinum, málið hálfpartinn óskiljanlegt ef manni beinlínis líkar við hjónin. Eins guldu þau þess að margir dýravinir vildu ekki trúa á sekt dingósins en löngu síðar kom í ljós að dingóar geta ráðist á börn og Chamberlain-hjónin voru að lokum algerlega sýknuð af réttarkerfinu og beðin afsökunar. Allt gerðist það raunar löngu eftir gerð bíómyndarinnar sem var gerð skömmu eftir að Lindy var látin laus eftir fjögur ár í fangelsi.

Previous
Previous

Viðkvæmar og veraldarhrjáðar Vassarstúlkur

Next
Next

Hægfara Wagnermenntun