Hægfara Wagnermenntun

Eins og allir lesendur þessarar síðu vita væntanlega er Wagnerdagurinn tiltölulega nýlega liðinn og mér var boðið þá helgi á exklúsíva sýningu á atriðum úr Niflungahringnum, mikilvægustu uppfærslum, ásamt viðeigandi fæðu. Líklega eru allir sem voru viðstaddir betur til þess fallnir en ég að ræða um Wagner opinberlega en á hinn bóginn er ég með þessa síðu og þetta var sannarlega mikill menningarviðburður sem kallar á umræðu. Upphaflega var ég lítill Wagneristi enda er auðvelt að hafa fordóma og margir eru haldnir þeim en hef smám saman komist í ákveðið samband við hann og sannfærst um snilld hans. Eins og ég sé Wagneróperuna er hún glænýtt listform, ekkert lík Verdi eða neinum öðrum sviðsverkum sem á undan fóru. Eins vísar tónlistin mjög fram á við og var greinilega mikið stæld á 20. áratugnum.

Eitt af því sem heillar við Niflungahringinn er hversu andstæður hann er farsímamenningu nútímans. Allt tekur langan tíma og eflaust hefðu einhverjir gagnrýnendur eða ritstjórar í nútímanum sagt Wagner að klippa en það er einmitt þessi tími sem allt tekur sem gerir verkið svona áhrifamikið. Sigmundur tekur þannig næstum endalausan tíma í að sækja sverðið í askinn en sannarlega er það örlagaþrungið og áhrifamikið einmitt þess vegna, ekki síst í flutningi hins glæsilega Peter Hoffmann sem lék hlutverkið í aldaruppfærslunni í Bayreuth frá 1976.

Þessi miðaldasaga höfðaði mjög til manna víða um Evrópu á 19. öld og Wagner fer með hana á sinn hátt enda fjölmargar miðaldagerðir til og engin ein „rétta gerðin“. Þó að Völsungasaga sé merkileg saga er hún líka stundum skrítin og ruglingsleg og ekkert í henni ljær atburðarásinni sama þunga og tónlist Wagners, t.d. þegar Sigurður Fáfnisbani deyr og þær persónur sem eftir standa þurfa að bregðast við. Það er sýnt á sáraeinfaldan og áhrifamikinn hátt í aldaruppfærslunni frá 1976.

Á seinustu áratugum hefur verið vikið frá 19. aldar hefðinni að Brynhildur sé leikin af stórvaxinni konu í brynju og hornahjálmi með ljósar hetjur. Ég sá Gwyneth Jones í þessu hlutverki á aðfangakvöldi Wagnersdags og óperuleik eins og hann gerist bestur en hún líkist í engu þessum fornu Brynhildum. Þetta er kannski eitt merkasta kvenhlutverk miðaldabókmennta en Wagner náði samt að lyfta henni í sínum verkum.

Þó að það sé yfirþyrmandi verkefni að komast inn í þessar óperur fær maður í hvert sinn á tilfinninguna að þetta séu verk sem auðvelt væri að lifa og hrærast í og kynnast betur alla ævina og maður skilur aðdáunina æ betur.

Previous
Previous

Meryl og manndrápsvoffinn

Next
Next

Ítalski draumurinn