Ítalski draumurinn
Í Youtubeleiðangrinum mikla sem ég hef lýst í fyrri greinum kom röðin að óskarsverðlaunamyndinni Breaking Away (1979) sem mig langaði mikið að sjá þannig að þegar Youtube-eintakið reyndist hræðilegt fann ég hana annarstaðar á netinu og horfði bara á hana á tölvunni sem annars hefur ekki verið minn siður. Þannig hafði veiðimannseðlið náð tökum á mér og síst af öllu vildi ég sjá neitt í janúar sem sjónvarpsstöðvar eða Netflix héldu að mér. Breaking Away var sýnd í íslenska sjónvarpinu árið 1984 en þá hafði ég engan áhuga. Íslenski titillinn var Brotist úr viðjum en áður hafði hún verið sýnd í bíó hérlendis undir titlinum Kapp er best með forsjá (í Danmörku hét hún Italien rundt en sá titill skýrist kannski á eftir).
Eiginlega allar myndirnar sem ég sá í leiðangrinum voru forvitnilegar og áhugaverðar en fæstar skemmtilegar en Brotist úr viðjum er það raunar. Hún fjallar um fjóra unga menn (sjá að ofan) sem slaka á í yfirgefinni námu nálægt Bloomington í Indiana og synda þar. Þeir eru ekki í háskóla en stór háskóli eru í grenndinni og stúdentarnir fyrirlíta aðra íbúa bæjarins. Þessi stéttaskipting er baksvið myndarinnar en aðalsagan fjallar um Dave sem er góðlátlegt ungmenni að springa úr áhuga á hjólreiðum og einkum ítölskum hjólreiðamönnum og gengur það svo langt að hann er farinn að tala ítölsku við foreldra sína. Þar kemur að hinu þema myndarinnar sem eru átök kynslóðanna. Föður Dave fellur mjög illa við Ítalíuáhuga sonarins en móðirin tekur virkan þátt, býr til ítalskan mat og leyfir honum að fylla húsið af ítalskri óperutónlist.
Fyrst veit maður ekki hvort hræðilegir hlutir eigi eftir að gerast en handritshöfundurinn (sem vann óskarsverðlaunin) er raunsæismaður og skilur að hversdagslegir hlutir eins og fátækt, tilgangsleysi og misheppnaður metnaður eru alveg nægt söguefni þó að ekki sé bætt við enn meira drama. Veslings Dave hittir að lokum ítalska hjólreiðakappa en þeir koma illa fram við hann og í staðinn þarf hann að sætta sig við að keppa í staðarhjólreiðakeppni við stúdentana hrokafullu. Þá keppni vinnur hann með (fremur veigalítilli en samt nauðsynlegri) hjálp félaga sinna og faðirinn tekur soninn í sátt og fer sjálfur að hjóla til vinnu.
Jafnvel hrokafullu stúdentarnir klappa að lokum fyrir hjólreiðahetjunni og hann sættist við stúlkuna sem hann hafði áður náð saman við í gervi Ítala — eins konar blekkingarleikur og þó tæplega því að Dave leikur þegar Ítala í sínu daglega lífi — og var að vonum ókát þegar hún komst að því að drengurinn var ekki ítalskur. Þetta er allt svolítið galið en líka satt á sinn hátt, Dave og foreldrar hans eru fólk sem maður getur trúað á og líkað við, og eins vinirnir þrír sem eru líka að berjast við að finna tilgang lífsins, bara svipað og við öll.