Byskupar með y-i
Þó að ég gæfi ekki út skáldverk fyrr en árið 2008 dreymdi mig um að verða skáldsagnahöfundur þegar ég var um tvítugt, eflaust innblásinn af lestri margra helstu íslensku skáldverka 20. aldar, m.a. eftir Halldór Laxness. Ég hafði litla þjálfun og metnaðurinn var því heldur meiri en getan en mig dreymdi um að skrifa allar hugsanlegar tegundir skáldsagna og meðal annars eina sem gerðist á 15. öld og fjallaði um harða valdabaráttu yfirstéttarinnar. Ekki hafði ég mikla reynslu af stíl 15. aldar þá en reyndi samt að skrifa fornlega.
Á þeim tíma fannst mér fráleitt að skrifa skáldsögu sem gerðist í útlöndum (en það hef ég reyndar gert síðan) þannig að það var íslenska 15. öldin sem var í öndvegi, engir kóngar eða barúnar en hins vegar byskupar og þá með y enda var ég fljótur að komast að því í mínu íslenskunámi að þannig hefði orðið verið ritað á síðmiðöldum. Eflaust reyndi ég líka að setja inn sem flest skringiyrði því að ég var heillaður af vasabókum Halldórs Laxness og gekk sjálfur um með slíkar og skrifaði hjá mér eitthvað nógu einkennilegt til að vera í skáldsögu (þegar ég loksins sendi frá mér skáldsögur mörgum árum síðar var ég læknaður af þessu og þær voru á einföldu og tilgerðarlausu máli).
Áhugi minn á 15. öldinni hefur síst minnkað síðan og núna blasir við mér að jafnvel þó að ég hefði lesið sagnfræðirit Arnórs Sigurjónssonar þegar ég reyndi mig við 15. öldina hafði ég enga slíka þekkingu á tímabilinu sem dygði til að skrifa heila skáldsögu. Auk heldur man ég ekki til þess að ég hefði haft neinar merkilegar hugmyndir í skáldsöguna. Hins vegar hafði ég búið til ókjör af persónum, ættartölur þeirra og ártöl. Ekki man ég þær lengur fyrir utan mikinn höfðingja sem hét Valla-Guðni og var með ljóst skegg í stíl Guðbrands Þorlákssonar.
Sennilega vissi Shakespeare ekki mikið um þetta tímabil heldur en lét það auðvitað ekki stöðva sig eins og sjá má á fjölmörgum leikritum hans um Heinreka Englandskonunga á þessari horfnu öld. Ég hins vegar sprakk á limminu með þessa skáldsögu og a.m.k. fjórar aðrar á þessum tíma. Við tók áratugur af ævinni þar sem ég gaf alveg upp á bátinn hugmyndina um að skrifa skáldsögur en svo féll ég að lokum í þá gildru.