Alfræðin er komin á netið
Síðla árs 2021 tók ég að mér að vera ritstjóri íslensks efnis á vefalfræðiritinu The Literary Encyclopedia en á þeim tíma voru aðeins 11 greinar þar um íslensk málefni. Síðan hef ég unnið hörðum höndum að því að fjölga þeim, þær eru nú rúmlega 50 og markmiðið er að þær verði 1000 á áratug. Slík alfræðirit eru einkum lesin af þeim sem þekkja íslenskar bókmenntir fremur lítið en vilja fá traustan fróðleik í örstuttu máli. Ég var mikill alfræðibókamaður í bernsku og því heiður að fá að vinna að slíku riti. Ég hef líka nýtt mér möguleika netsins með því að ekki er ströng röð á því hvernig færslurnar eru birtar og valið á efnum gæti virst handahófskennt núna en eftir áratug eða svo ætti flest mikilvægasta efnið að vera komið í ritið.
Auðvitað eru önnur alfræðirit til og má þar nefna Wikipediu. Fjölmargar færslur um íslensk og norræn efni eru mjög gagnlegar en á hinn bóginn eru þær fjarska misjafnar að formi og sumar taka ekkert tillit til nýrra rannsókna. Íslenska efnið í bókmenntaalfræðibókinni ætti að verða jafnara að gæðum. Eins verður hægt að endurskoða það reglulega.
Sérfræðingar á sviði norrænna fræða eru um allan heim og að lokum verður leitað til sem flestra þeirra en ég ákvað að byrja að ræða við Íslendinga og fræðimenn sem vinna á Íslandi vegna þess að mér finnst mikilvægt að Ísland leggi eitthvað fram til íslenskra fræða. Einhverjum gæti fundist það sjálfsagt en staðreyndin er sú að það þarf heilmikið að hafa fyrir því að miðja íslenskra fræða sé á Íslandi og þeim mun mikilvægara þegar unnið er að alfræðiriti sem ekki síst verður lesið í fjarlægum heimsálfum.