Heilagur Tómas og vodkaflaskan
Ein þeirra kvikmynda sem ég leitaði hvað ákafast að þegar ég var að undirbúa Youtubeleiðangur janúarmánaðar var Becket sem kom á hvíta tjaldið árið 1964 og var tilnefnd til fjölmargra óskarsverðlauna. Að vonum var ég forvitinn um bíómynd sem gerist á miðöldum og lýsir morði heilags Tómasar erkibiskups af Kantaraborg sem Heinrekur 2. Englandskonungur var talinn bera ábyrgð á. Eins leika í myndinni Richard Burton, Peter O’Toole, John Gielgud og fleiri stórleikarar og ég hef ekki síst verið áhugasamur um Burton eftir að ég gisti á Dorchesterhótelinu í maí í fyrra en þar voru Burton og kona hans Liz Taylor tíðir gestir á sínum tíma (eins og ég sagði frænda mínum á 11. ári í þeirri ferð hafði Burton fyrir sið að trappa sig niður í áfengisneyslu þegar hann lék í kvikmyndum eða á sviði — niður í eina vodkaflösku á dag). Það er kannski engin furða að þessi leiksnillingur varð ekki langlífur en sannarlega hafði áfengið góð áhrif á rödd hans eins og fleiri. Við sem erum nógu gömul munum öll flosmjúku leikara- og útvarpsmannaraddirnar sem stórreykingar og ofdrykkja höfðu gert enn tilkomumeiri.
Ekki veit ég hver fékk þá hugmynd að láta þennan rómþýða jaxl leika heilagan Tómas erkibiskup — um svipað leyti sá ég hann í Njósnaranum sem kom innan úr kuldanum (1965) og féll Burton mun betur að því hlutverki. Peter O’Toole er augljósari kostur í hlutvekr Heinreks 2. sem var merkilegur konungur en O’Toole ofleikur hann stórkostlega og öll áherslan er á hálf-hómóerótíska afbrýðissemi hans í garð Beckets. Myndin hefst á að O’Toole er hýddur við styttu hins látna erkibiskups sem merkir að leikarinn hefur verið orðinn sérfræðingur í hýðingum í myndum á unga aldri því að eins og þeir muna sem hafa séð þær myndir er hann líka hýddur í Lawrence of Arabia (1962) og Lord Jim (1965), þ.e. þrisvar á þremur árum.
Þó að myndin sé alls ekki slæm fannst mér hún löng og leiðigjörn. Ég féll ekki fyrir túlkuninni á sambandi Beckets og konungsins og þar með var erfitt að tengjast fléttunni þó að í henni séu góðar senur, t.d. þegar fjandvinirnir hittast á ströndinni og eru sáttir að kalla. Heilmikið lifnar yfir myndinni þegar Sir John Gielgud birtist í hlutverki Loðvíks 7. Frakkakonungs. Ekki aðeins er einstaklega gaman að hlusta á Gielgud tala heldur er Loðvík skemmtilega írónísk persóna í hans meðförum og svolítið eins og miðaldakóngar áttu að vera: kátur, glaðlegur og alltaf kurteis en þó bruggandi öllum launráð sí og æ.
Kvikmyndin er gerð eftir leikriti hins franska Anouilh um Becket og þaðan eru flestar villurnar sóttar, t.d. sú að Becket hafi verið Saxi. Einnig furðulegt atriði þar sem Becket bjargar bændastúlku sem konunginn langar til að nauðga en í staðinn heimtar konungurinn að sofa hjá annars óþekktri kærustu Beckets sem nefnist Gwendolen en sú sviptir sig lífi fremur en leggjast undir kóngsa. Sannarlega fyrirtaks ástæða erfiðra samskipta vinanna í kjölfarið en alger tilbúningur og það frekar kjánalegur og grófur. Þá birtast tvær merkustu konur 12. aldar, móðir Heinreks og eiginkona, Matthildur keisaraynja og Eleanor frá Aquitane, í aukahlutverki í myndinni og virðast leiðinlegar og ómerkilegar. Frekar snautleg meðferð á þessum áhugaverðu miðaldakonum. Ég þekki Anouilh ekki nógu vel en vona að hann hafi farið betur með kvenpersónurnar í öðrum leikritum sínum.