Ás er stolinn hamri

Fyrir nokkrum mánuðum bauð ensk-kanadískur vinur minn og kollegi á sviði norrænna fræða mér að vera með sér í glænýrri enskri þýðingu á eddukvæðum þar sem þær yrðu þýddar á bókmenntalegan hátt undir réttum bragarhætti og þýðingin fæli jafnframt í sér túlkun. Ég tók þessu vel og hugsaði af alkunnri hógværð að fáar túlkanir á eddukvæðum gætu staðist mínum snúning. Síðan höfum við fengið samning út á fyrstu þýðinguna sem var Þrymskviða. Kannski augljós kostur til að vekja á eddukvæðum, bæði tiltölulega einföld en um leið skemmtileg og fjörug. En ekki er ég þó að plögga þýðinguna nú enda kannski ótímabært, aðeins að geta þess að vegna vinnu við hana var Þrymskviða vitaskuld eitt af þeim bókmenntaverkum sem ég lagðist yfir í janúar (nema það hafi verið í desember).

Flétta Þrymskviðu gengur sem kunnugt er út á þjófnað og klæðskipti. Þór blekkir þjófótta jötnana með því að játast Þrymi í gervi Freyju og er nánast genginn í hjúskap við karlkyns jötun þegar hann fær hamarinn á ný í hendurnar og drepur alla í brúðkaupinu nema sjálfan sig og Loka. Maður skilur ekkert í að Tarantino sé ekki löngu búinn að gera langa bíómynd um þetta með hálftíma blóðslettusenum. Sennilega veit hann sem er að Bandaríkjamönnum líkar ekki glens um hjónabandið nema því ljúki með vel heppnaðri giftingu. Hér er ekki um slíkt að ræða. Jötuninn Þrymur vill neyða Freyju í hjónaband og stelur því hamri Þórs (Hvernig fer hann að því? Kemur ekki fram!) en Freyja er ekki til í að fórna sér þó að Þór virðist finnast það sjálfsagt. Það er að lokum Heimdallur sem stingur upp á blekkingunni og Loki virðist meira en tilbúinn að fara með í kvengervi og hjálpa Þór að komast upp með blekkinguna.

Klæðskipti Þórs eru alls ekki eina dæmið um að guðir eigi léttara en menn með að flakka milli kyngerva eða taka hamskiptum yfirleitt. Í Jötunheimum birtist líka dularfull „jötnasystir“ sem vill fá alla skartgripi brúðarinnar. Tilgangur hennar er frekar óljós en það er einn helsti galdur eddukvæða að þau vísa í horfnar goðsagnir, hafa ef til vill haft helgisiðagildi sem okkur er þó hulið og lesandann grunar stöðugt að hann ætti að vita eitthvað sem honum er þó ekki sagt. Þrymskviða er þrátt fyrir allt þetta tiltölulega auðskiljanleg og í henni setningar sem gætu þess vegna verið íslenskt nútímamál, á borð við „Senn voru Æsir allir á þingi“.

Það táknræna gildi sögunnar sem blasir við er að án hamarsins er Þór sviptur karlmennskunni en um leið og hann heimtir hamarinn verður hann ósigrandi. Eins virðist Heimdalli illa við Þór, Freyja er blíðmál fyrst en reiðist ósanngjarnri kröfu hans um að henni sé skipt fyrir hamarinn, og Loki er eins og oft áður sá sem á auðvelt með að ferðast milli kynja og heima.

En hverjir eru jötnarnir? Hér koma þeir fyrir sjónir sem klókir en illir andstæðingar og réttdræpir vegna græðgi sinnar. Þrymur er konungur þeirra en gegnir því hlutverki þó ekki í neinni annarri heimild. Mynd þeirra er margbrotnari í mörgum öðrum eddukvæðum en samt eru jötnar Þrymskviðu dularfullir og ógnandi í kænsku sinni og heimsku.

Previous
Previous

Heilagur Tómas og vodkaflaskan

Next
Next

Persóna í eigin sögu