Persóna í eigin sögu

Aðdáendur sjónvarpsþáttanna um Poirot, Barnaby og Foyle ættu að kannast við Anthony Horowitz sem er mikilvirkur handritshöfundur en þar að auki rithöfundur, einn af þessum duglegu höfundum á borð við þau sem ég fjallaði um í síðustu viku, ég held að titlar hans séu hartnær 100 enda finnst engum í útlöndum skrítið að höfundar skrifi mikið. Horowitz skrifar mest fyrir börn og unglinga en líka fyrir fullorðna og meðal annars bók sem ég fann á bókaborðinu í Árnagarði nú í janúar og las á sólarhring eða svo sem er alltaf góðs viti. Ég hafði áður lesið bækurnar Magpie Murders og Moonflower Murders eftir sama höfund og skömmu fyrir jólin las ég þær raunar báðar í annað sinn til að sjá hversu vel mér gengi að taka eftir vísbendingum um morðingjana. Það gekk í stuttu máli ekki vel en hins vegar man ég bækurnar mun betur eftir tvo lestra en einn hafði vart dugað til, sennilega vegna þess að í hverri bók eru tvær glæpasögur, önnur innan í hinni og lestur á þeirri fyrri (sem fjallar um leynilögreglumanninn Atticus Pünd, augljósan frænda Poirots) leggur til vísbendingar í ráðningu seinni gátunnar sem gerist í nútímanum. Það er líka búið að gera sjónvarpsþátt um Magpie Murders og einnig hann hef ég horft á í sænska sjónvarpinu núna í janúar og febrúar. Þar er sú prýðilega leikkona Lesley Manville í aðalhlutverki og gerir heilmikið fyrir persónuna.

Ég þyrfti helst að skrifa annan pistula um þessar ágætu tvöföldu glæpasögur en dálæti á þeim og meðmæli bróður míns leiddu til að ég tók The Sentence is Death af bókaborðinu og hef enn ekki sett hana þangað aftur. Sú bók fjallar um höfundinn sjálfan, Anthony Horowitz. Hann er sem sagt í aðalhlutverki í eigin skáldsögu ásamt sérvitrum einkaspæjara og fv. lögreglumanni sem nefnist Hawthorne og er eins konar Holmes en Horowitz þá Watson — vísunin blasir við enda hefur Horowitz líka notað þá Holmes og Watson sem persónur í verkum sínum. Eins og ég nefndi í síðustu viku er Jack Higgins persóna í eigin bók frá 1975 en Horowitz gengur enn lengur og er aðalpersónan sem kallar vitaskuld á umtalsverða kómíska fjarlægð frá sjálfum sér. Konan hans er nefnd og er hin rétta kona hans o.s.frv. en sakamálið sem þeir Hawthorne fást við er væntanlega uppspunnið. Það reynist hafa ýmis tengsl við bókmenntaheiminn og bókin er því full af bókmenntalegum bröndurum. Til dæmis kannast allir við Horowitz sem höfund hinna vinsælu bóka um Alex Rider en kalla söguhetju hans ýmist Alan eða Eric Rider.

Markhópur bókarinnar er þannig sennilega ekki síst aðrir höfundar og hún hitti alveg í mark hjá mér, ekki síst sú stöðuga lítilsvirðing sem höfundar verða stöðugt fyrir en öllum er sama um nema okkur og Horowitz hefnir hér fyrir. Eins og Fay Weldon sem líka skrifaði fyrir sjónvarp er hann lipur og auðvelt að sjá atburði sögunnar fyrir sér. Hann á líka til að vera frumlega fyndinn eins og þegar hann lýsir einni persónu þannig að hún væri eins og „scaled-down model of herself“. Horowitz er auk heldur óhræddurvið að gera grín að sjálfum sér, t.d. persónan hann ákveður að leysa morðmálið en túlkar allt vitlaust og fellur í allar gryfjur. Sá sem þetta ritar var hins vegar á réttu spori allan tímann, aðallega vegna þess að Horowitz fylgir sömu reglu og ég sem er að morðinginn megi alls ekki vera allsendis óáhugaverð persóna.

Fyrir utan að vera gott póstmódernískt grín er bókin þannig ágætis heimild um hvaðeina sem fólk segir um og við rithöfunda. Eitt skemmtilegasta atvik hennar er þegar hrokafullt skáld reynist vera höfundur klámfenginna sögulegra skáldsagna um Artúr konung undir dulnefni og finnst hálfu verra að játa það á sig en glæpinn sjálfan.

Previous
Previous

Ás er stolinn hamri

Next
Next

Lognið milli stormanna