Lognið milli stormanna

Ég mun hafa rakið það áður á þessum síðum að eftir að ég fann Youtube á skjánum heima í vetur hóf ég leit að eldri kvikmyndum sem mig hefur lengi langað til að sjá og fann þær margar í fullri lengd og eintökin góð. Ein slík heitir They Live By Night og er frá 1948, er aðeins tæplega 90 mínútur eins og margar eldri myndir. Síðan þá hafa fyrirlestrarnir styst en bíómyndirnar lengst, hvaða ályktun sem draga má af því. Téð mynd var fyrsta kvikmynd leikstjórans Nicholas Ray en framleiðandinn var John Houseman (meira um hann eftir nokkrar vikur). Í aðalhlutverkum voru Cathy O’Donnell og Farley Granger en myndin markaði líka upphaf af skammvinnum stórstjörnuferli hans og ég verð að játa að ég hef lengi verið áhugasamur um Farley Granger eins og fleiri hlédrægar stjörnur. Myndin sló ekki í gegn, tapaði miklum peningum á sínum tíma og var hrakyrt af flestum en síðar endurmetin og talin ein helsta perla svartmyndatímabilins (eða film noir, eins og Frakkar segja).

Form myndarinnar er stóráhugavert. Hún hnitast um alls konar stórviðburði, fangaflótta, bankarán og fleira af því tagi. Hins vegar hefur Ray takmarkaðan áhuga á að sýna okkur þetta og drjúgan hluta myndarinnar sjáum við fátt nema tvær manneskjur spjalla saman eða keyra um í bíl. Ekki var þetta vegna tæknilegra ástæðna því að Ray hafði afnot af þyrlu sem var fáséð á þeim tíma (skýrir kannski tapið á myndinni!). Það er fremur að hið smáa og innilega sé hugðarefni leikstjórans sem fyrst og fremst er að fjalla um hversu vonlaust sé fyrir fólk að sleppa úr vondum aðstæðum, sama hvað það reynir. Þetta er líka óvenjuleg mynd að því leyti að öll samúðin er með útlögunum fremur en yfirvöldunum. Það komst í tísku löngu síðar en var nýjung árið 1948, þegar kalda stríðið var í algleymingi.

Í myndinni er sjónum einkum beint að unga glæpamanninum Bowie (Granger) sem kynnist stúlkunni Keechie (O’Donnell) á flótta og þau fella hugi saman þótt bæði séu feimin. Þau eru á flótta mestalla myndina, giftast við afar frumstæður aðstæður hjá friðdómara nokkrum sem sérhæfir sig í hraðgiftingum og gera í kjölfarið vonlausa tilraun til að lifa eðlilegu lífi á fjallahóteli. Þau langar til að halda jólin þar eins og venjulegt fólk með skrauti og innpökkuðum gjöfum þegar félagar Bowie skjóta upp kollinum og heimta að hann verði með í öðru ráni — sem auðvitað misheppnast. Hann á ekkert val því að blöðin hafa ákveðið að hann sé hættulegur glæpamaður og allir sem bera kennsl á hann geta komið lögreglunni á spor hans sem þýðir dauða eða fangelsi.

Það eru engar óvæntar flækjur í myndinni, aðeins miskunnarlausar aðstæður sem kreppa æ meira að parinu unga og koma í veg fyrir að draumar rætist. Bestu atriðin í myndinni hnitast um angist andspænis þessum örlögum sem þau ráða engan veginn við. Bowie er drepinn að lokum en Alfred Hitchcock sá myndina og varð svo hrifinn af Farley Granger að hann fékk hann til að leika í meistarastykkinu Rope (þar sem Granger ber af en James Stewart er eins og álfur úr hól) og Strangers on a Train. Þar fyrir utan vissi Hollywood ekkert hvað það ætti að gera við Granger sem lék aðallega á sviði og í sjónvarpi eftir þrítugt. Hann flutti að lokum til Ítalíu ásamt maka sínum og skrifaði að lokum ævisögu þar sem hann rakti allt Hollywoodslúðrið og eins alla karlana og konurnar sem hann sjálfur hafði átt í tygjum við, alveg laus við samviskubit eða sektarkennd. Maður hefur á tilfinningunni að hann hafi verið talsvert á undan sínum tíma.

Previous
Previous

Persóna í eigin sögu

Next
Next

Berrössuð dýr og upplausn fjölskyldunnar