Berrössuð dýr og upplausn fjölskyldunnar

Þegar ég var barn var fátt í meira uppáhaldi en Andrés önd. Ég man vel eftir mér fimm ára lesandi hann á gólfinu heima þó að ég kynni ekki að lesa og hvað þá dönsku og heimsóknir í önnur hús einkenndust iðulega að því að maður komst að lokum í áður ólesin Andrésblöð og gat kynnt sér þau – að eignast heildarsafn Andrésblaða frá um 1960 hefði verið stórkostlegur happdrættisvinningur (ég á enn ansi gott safn frá 1978 til 1986). Það var í einni slíkri heimsókn sem fjölskylduvinur sagði okkur að Andrés hefði verið bannaður í Finnlandi, bæði vegna þess að hann gengi um berrassaður og ekki síður af því að Andrés og Andrésína væru ekki gift og hann væri ekki faðir unganna heldur frændi. Hið sama gildir raunar um Mikka, Andrésinu, Georg gírlausa og Feitamúla, þetta eru allt barnlausar persónur sem eiga frænkur og frændur, sem sagt andstætt fjölskyldugildum.

Fljótlega tók maður líka eftir því sama og allir aðrir, þ.e. að þó að Andrés gangi jafnan um berrassaður vefur hann alltaf um sig handklæði þegar hann fer í bað eða sund. Í fyrstu hljómar það eins og alvarlegur skalli í fléttunni en er þetta kannski þvert á móti snjall leikur hjá Carl Barks? Allur klæðnaður og líka klæðleysi snýst um handahófskenndar venjur, siði og reglur. Einu sinni fór ég inn í búð á Laugaveginum þar sem táningspiltur einn var á stuttbuxum einum fata. Þetta fannst mér ekki viðeigandi en hefði varla tekið eftir því ef hann hefði verið þannig klæddur á einum hinum fjölmörgu galtómu torgum í miðbænum eða t.d. á Austurvelli. Lífið er fullt af slíkum undarlegum klæðaburðarreglum og þetta veit allt skynsamt fólk. Fáir eru á þeirri skoðun að engar reglur eigi að gilda um klæðnað neinstaðar og engum nema alleiðinlegustu kverúlöntum dettur í hug að þær eigi að vera 100% rökréttar.

Klæðaburður Andrésar helgast auðvitað af því að hann er bæði önd og maður. Endur ganga aldrei í fötum en búa ekki heldur í húsum eins og Andrés eða vinna í smjörlíkisgerð. Það er mannlegi þátturinn í Andrési sem kallar á handklæðið og matrósaskyrtuna en öndin á nakta neðrihlutann. Hinn siðgæðisvandinn er sennilega öllu flóknari. Nú blasir við að hann er væntanlega upphaflega til kominn vegna þess að ungarnir og annað ungviði þessa tilbúna heims fylgdi persónunum ekki frá upphafi heldur birtist smám saman sem hefði verið túlkað sem vanræksla ef faðir eða móðir hefði átt í hlut. Úr verður hins vegar samfélag þar sem enginn býr hjá foreldrum sínum og ef það er satt að einhver hafi bannað Andrésblöðin út af þessu er það kannski ekki óvænt – Andrésblöðin eru þá orðin eins og áróður fyrir öðruvísi fjölskyldumynstri.

En kannski er þetta einmitt eitt af því sem heillar við Andabæ. Þetta eru nútímasögur þar sem persónurnar þurfa að geta leikið lausum hala óbundnar af fjölskylduböndum. Það er kannski gott fyrir Georg gírlausa að fá Edison litla frænda sinn stundum í heimsókn en varla getur hann eytt öllum tíma sínum í uppfinningar ef hann þarf líka að ala upp barn. Það er því undirtexti í blöðunum að fjölskyldubönd séu stundum heldur til trafala og eins hentar það sögunni betur að Andrés og Andrésína séu föst í lengstu trúlofun allra tíma en giftist aldrei.

Previous
Previous

Lognið milli stormanna

Next
Next

Um kvendjöfla