Um kvendjöfla

Hvernig hljómar það þegar fólk á sextugsaldri getur ekki hætt að tala um foreldra sína? Vanþroskað? Í mínu tilviki hef ég þá afsökun að þau hurfu allt of snemma og voru líka bæði persónur af þeirri stærð að fáir aðrir en ég ná utan um það (ég segi samt ekki að ég nái alveg utan það). Í gær ræddi ég aðeins spennusagnasmekk pabba. Mamma tók lítinn þátt í honum nema kannski því allra aðgengilegasta (líklega hefur hún samt horft á Örninn með okkur því að einnig hún ólst upp í seinni heimsstyrjöldinni). Hún hafði aftur á móti ekki ósvipaðan smekk á gamanmyndum (eltingarleikir í lokin voru mikill plús) og svo las hún „kvennabækur“ sem engir karlmenn lásu og ekki heldur pabbi og átti m.a. nokkrar bækur Fay Weldon sem andaðist í hárri elli nú í janúar. Hún var á svipuðum aldri og Jack Higgins og líkt og kolleginn hét hún alls ekki Fay Weldon heldur Franklin Birkenshaw, fædd á Englandi en alin upp í Nýja-Sjálandi, flutti heim á táningsárunum og átti allan sinn feril á þokueyjunni en þar þó lengi talin til andfætlinga.

Fáir góðir höfundar skrifa örfáar bækur. Bækur Fay Weldon skiptu tugum og auk heldur samdi hún leikrit þannig að alls urðu skáldverkin um 70 (Wikipedia nennir ekki að telja þau og ég ekki heldur). Mamma keypti nokkur og las en einu bækurnar sem urðu langlífar á heimilinu (því að mamma grisjaði af kappi) voru The Fat Woman’s Joke (fyrsta útgefna skáldsaga Weldon) og The Life and Loves of a She-Devil sem ég geri ráð fyrir að sé mesti hittarinn hennar. Mamma var aldrei yfirlýstur feministi en þó var hún það samt og sást vel á bókunum á heimilinu. Eins var Weldon mikill feministi en samt iðulega umdeild meðal feminista eins og rithöfundar verða gjarnan því að það er ekki eðli þeirra að vera regluverðir. Ég man líka að eitt af því sem dró mömmu að Weldon var hversu andstyggileg hún gat verið en það hrinti henni líka frá henni. Höfundar eiga auðvitað ekki að bjóða upp á tóma sykurvellu en stundum sá mamma líklega ekki tilganginn í eitruðum athugasemdum Weldon. Þess ber að geta að þær komu auðvitað ekki úr sama samfélagi og mamma kom fyrst til Englands 52 ára (en 16 ára til Skotlands sem líklega var meira við hennar skap).

Ég veit að ég las bókina um feitu konuna en man sáralítið eftir henni og líklega var ég of ungur þá til að hafa áhuga á fitusmánun samfélagsins, var aldrei sami hatursmaður ofþyngdar og margir í umhverfinu en ekki heldur líklegur á þeim árum til að koma auga á hræðilega framkomu margra gagnvart þeim sem telja neðar í fegurðarvirðingarröðinni. Öðru máli gegnir um Kvendjöfulinn, sú bók orkaði sterkt á mig og þó var umbreyting bókarinnar mér alveg óskiljanleg enda að verulegu leyti táknræn og ég var harður realisti á unga aldri. Sjálfsagt fengi ég meira út úr bókinni núna. Til dæmis velti ég því fyrir mér hvort hugmyndin um kvendjöfulinn sé ekki bæði harmrænt og táknrænt tilbrigði við kvenhatur menningarinnar bæði fyrr og síðar.

Á sínum tíma var Weldon mjög í tísku og jafnvel núna var sagt frá andláti hennar í fréttum, líka hér á landi. En ætli unga kynslóðin þekki hana eða er hún fyrst og fremst höfundur fólks af kynslóð foreldra minna?

Previous
Previous

Berrössuð dýr og upplausn fjölskyldunnar

Next
Next

Ég breytist í pabba