Ég breytist í pabba
Pabbi elskaði hasarmyndir, ekki síst ef þær tengdust seinni heimsstyrjöldinni og alltaf var til bóta ef Roy Scheider eða Gene Hackman voru meðal leikara. Sú var tíð að ég hafði lítið álit á þessum táningslega smekk, einkum þegar ég var upp á mitt spakasta á aldrinum 17-23 ára. En eftir að pabbi lést (er æva skyldi) fór svo að ég erfði smekk hans að einhverju leyti og þegar góð spennumynd frá 8. áratugnum skýtur upp kollinum á dagskrá norrænu stöðvanna er fátt öruggara en að ég verð meðal áhorfenda, jafnvel þó að ég hafi séð viðkomandi mynd mörgum sinnum áður. Á nýarsdag eða þar um bil var Örninn er sestur (1976) með Michael Caine, Donald Sutherland (sem mamma var líka hrifin af), Robert Duvall og Donald Pleasence á dagskrá í danska sjónvarpinu og þá varð ég auðvitað að horfa en til að sanna mig sem bókmenntafræðing dró ég líka fram bókina sem ég keypti í kilju fyrir Englandsferð vorið 2008 og las hana daginn eftir til að skilja betur spennusagna- og spennumyndaformin.
Höfundur bókarinnar er Harry Patterson (1929–2022) sem skrifaði í fyrstu undir eigin nafni en tók síðan upp höfundarnafnið Jack Higgins og sló rækilega í gegn sem slíkur, m.a. með Erninum. Hann notaði líka nöfnin Martin Fallon, Hugh Marlowe og James Graham en eftir Örninn vildu útgefendur skiljanlega nota Higgins-nafnið í hvert sinn og þá dóu hinir þrír en Patterson fékk að skrifa eina bók enn undir eigin nafni. Leit mín að kápumyndum staðfesti þann grun að þar var rækilega tekið fram að hér væri Jack Higgins og enginn annar á ferð. Alls urðu bækur hans 77, 11 kvikmyndaðar, en engin hefur jafnast á við Örninn í vinsældum, skiljanlega. Patterson lést í fyrra og ég gef mér að unga kynslóðin þekki hann ekki. Spennubækur eru yfirleitt börn síns tíma og áhuginn á heimsstyrjöldinni síðari fer eflaust minnkandi hjá þeim sem fæðast eftir 1985. Jafnvel Hitler sjálfur hefur æ minna aðdráttarafl.
Meðal einkenna bókarinnar og myndarinnar er að hún dregur ekki upp svarthvíta mynd af viðburðunum og persónunum. Flestir Þjóðverjar myndarinnar eru jákvæðar persónur (jafnvel þessi ljóshærði á myndinni að ofan með nasistaútlitið) þó að einnig glytti í vonda SS-menn. Steiner ofursti sem leikinn er af Michael Caine er sannur heiðursmaður og í bandalagi við hann er hinn hrekkjótti Liam Devlin (leikinn af Donald Sutherland) sem er írskur og laus við aðdáun á Bretum. Eins kemur við sögu Jóhanna Grey sem er upphaflega Búi en orðin bresk. Saga Írans og Búans er sögð og kemur í veg fyrir að bókin einkennist af einfaldri hrifningu á hinu fallna heimsveldi. Hún er enda skrifuð um 1975 en þá voru komin fram ýmis róttæk viðhorf til nýlendustefnunnar sem nú hafa mörg verið tekin upp af miðjusinnum að leika róttæklinga.
Kannski er það þessi hljómbotn sem ég sakna mest úr bókinni, ekki síst Jóhönnu sem fær mun minna pláss í myndinni. Til dæmis kemur ekki fram hversu miklu máli aðdáun prestsins Vereker á henni skiptir. Eins er sleppt breskum svikara sem Higgins fyrirlítur einum of mikið til að hann verði beinlínis frábær persóna en þó er hann ekki alveg laus við samúð jafnvel með honum. Maðurinn sem drepur hann birtist í myndinni en persóna hans ekki svipur hjá sjón miðað við bókina. Þá vantar alveg í myndina flugmanninn sem er ein besta persóna bókarinnar og hefði verið gaman að fá stórleikara í það hlutverk. Eins er sleppt langri aukafléttu um svartamarkaðsbrask sem ég sakna reyndar alls ekki neitt.
Líkt og kollegi hans Frederick Forsyth er Higgins hrifinn af kænum plotturum og plottið í bók og mynd er hannað af Max Radl sem Robert Duvall leikur. Í myndinni er Radl skotinn í lokin, sennilega til að hlífa okkur við grun um enn verri örlög en bókin er ekki svona góð við okkur lesendur. En í bæði bók og mynd lýkur öllu saman á hræðilegri kúvendingu (plot twist) sem eiginlega eyðileggur alla söguna því að í ljós kemur að ekkert sem gerðist hafði það vægi sem talið var. Þetta þótti eflaust sniðugt upp úr 1970 en hefur ævinlega pirrað mig, enn meira í þetta sinn. Mér líður eins og höfundur hafi lokið bókinni á að gefa mér fokkmerki.
Öfugt við myndina er bókin römmuð inn af tveimur ferðum Jack Higgins (já, höfundurinn er sjálfur persóna í bókinni) til Studley Constable og mér fellur sá rammi vel. Þó að myndin sé frábær (ekki síst tónlistin og leikararnir) og geri meginatriðum sögunnar góð skil væri ég mjög til í að sjá sjónvarpsþætti þar sem hægt væri að fylgja bókinni betur og ná utan um flækjurnar.