Mutter í Hörpunni

Ég var svo lánsamur að vera boðið í Hörpu í lok janúar af helsta aðdáanda Anne-Sophie Mutter á Íslandi, sat þar í bestu sætum og hlustaði á Mutter leika eitt af mínum eftirlætisverkum ásamt kornungum skjólstæðingum sínum. Þar á ég auðvitað við Árstíðirnar sem ég kynntist um tvítugt þegar áhugi minn á klassík var sem mestur og hef heyrt ótal sinnum og jafnvel á tónleikum en flutningur Mutter og hennar fólks var samt einstakur og mér fannst ég heppinn að þetta voru einu tónleikarnir á Íslandi og mér hlotnuðust þau forréttindi að sjá þá. Jafnvel þótt ég sé annálaður fúlimúli með innilokunarkennd sem forðast núorðið alla viðburði sem ekki er hægt að stinga af úr í miðjum klíðum. Satt að segja hefur engum tekist að draga mig út á kvöldi í þessum seinasta janúar nema tveimur merkustu listamönnum okkar tíma, Mutter og skáldkonunni Anne Carson.

Ég sá ekki að það stæði neitt í prógramminu um fiðlu Mutter en ég tel víst að hún sé frá 18. öld og sennilegt að allir á tónleikunum nema ég þekki sögu hennar út og inn. Bleiki kjóllinn sem hún klæddist var ekki sá að ofan en ekki síður heillandi og stundum gleymdi ég næstum tónlistinni við að horfa á hann. Ég var mjög hrifinn af bleiku þegar ég var barn og ein eftirlætismanneskja mín, amma, klæddist þeim lit stundum (en oftar lilla sem var algengt orð þá en ég heyri sjaldan núna). Fyrir utan Árstíðirnar voru á dagskrá minna þekkt stutt verk eftir Vivaldi og annað lengra eftir Chevalier de Saint-Georges, samtíðarmann Mozarts, en þótt skömm sé frá að segja hafði ég aldrei heyrt hans getið fyrr en ég samþykkti að fara á þessa tónleika. Mér leist vel á hann við fyrstu heyrn.

Myndin að ofan er ekki frá tónleikunum en þar er þó sellóleikarinn sem fylgdi Anne-Sophie til Íslands, Lionel Martin, sem mun vera þýskur og aðeins 19 ára. Alltaf þegar ég sé svo ungt fólk á sviði velti ég því fyrir mér hvers vegna ég notaði líf mitt ekki til neins gagnlegs. En staðreyndin er sú að pabbi og mamma höfðu takmörkuð efni fyrir tónlistartíma og áhugi okkar bræðra (sem höfum raunar alltaf haldið lagi, öfugt við suma aðra í fjölskyldunni) var ekki nægur til að réttlæta annað eins. Þau hefðu eflaust spanderað í tónlistina annars en við höfðum meiri áhuga á alfræðibókum og hvers konar sögum. Að þessu sögðu mun ég halda áfram að fylgjast með Lionel og get vonandi stært mig af því eftir 20 ár að hafa séð hann snemma á ferlinum. Samleikur þeirra Mutter var kraftmikill og fjörugur, mér liggur við að segja ástríkur og það er gaman að sjá örlæti snillingsins sem lyftir sínum ungu meðleikurum mikið á hverjum tónleikum og vill alls ekki sitja ein að aðdáuninni.

Aukalagið á tónleikunum var eftir John Williams en með honum hefur Mutter unnið mikið seinni ár og er ekki laust við að púristum þyki hún hafa selt sjálfa sig poppdjöflinum (ég hitti einn slíkan eftir tónleikana). Þó að Williams sé ekki avant garde er hann samt frábært tónskáld í stíl Dvoraks og Tsjækovskí, snillingur í því sem hann gerir og Mutter flutti líka glænýtt nútímatónverk eftir kóreskt tónskáld sem ég man ekki lengur hvað heitir. Fyrir mér hljómaði það eins og sú hefði átt erfiðan dag með miklum höfuðverkjum en þeir sem betur vita fullvissuðu mig um að með rækilegri hlustun upplifi fólk snilldina í þess háttar tónlist.

Ef hægt væri að lýsa tónlist með orðum væri engin þörf fyrir tónlist. Eins á ég engin orð sem ná utan um nautn hlustanda á svona viðburði. Vil þó nefna að klappið í lokin var til fyrirmyndar, hljómaði eðlilega og fullt hrifningar en ekki vélrænt, og eins stóð fólk upp hæfilega snemma en ekki í lokin á fagnaðarlátunum, eins og það sé að fara. Það er afar sjaldgæft að ég sé sáttur við klapp og áhorfendauppistand á íslenskum viðburði en þessi salur fær A fyrir kúltíverað klapp.

Previous
Previous

Ég breytist í pabba

Next
Next

Helgi og sögustaðirnir