Helgi og sögustaðirnir
Ég varð aðdáandi Helga Þorlákssonar löngu áður en ég mundi nafn hans, þegar ég las litla bók með greinum fræðimanna sem gefin var út í tilefni af 700 ára afmæli Snorra Sturlusonar árið 1979 en mig rámar í að við höfum farið á sýningu í Þjóðminjasafninu af sama tilefni og þetta var um það leyti sem ég las Heimskringlu fyrst og hafði fyrir satt að myndin af Snorra í upphafi væri hann. En því kom Helgi í uppnám með grein sinni „Hvernig var Snorri í sjón?“ sem ég las á ný upp úr tvítugu og uppgötvaði að hún var enn fyndnari en mig minnti því að ekki aðeins afhjúpaði Helgi myndlistarmennina sem teiknuðu Snorra sem sjálfa sig heldur stingur hann að lokum upp á að Snorri hafi verið ekki óáþekkur Helga sjálfum í sjón og er þetta einhver póstmódernískasta grein í norrænum fræðum. Síðar komst ég að því að Helgi var yfirburðamaður í að skrifa í hin smávöxnu afmælisrit Árnastofnunar. Lengi var sagt að greinar í þeim skiptust í fjóra flokka: 1. Fyndnar greinar, 2. Ófyndnar greinar sem áttu að vera fyndnar, 3. Ófyndnar greinar sem áttu aldrei að vera fyndnar, og 4. Greinar sem ekki var nokkuð leið að vita hvort áttu að vera fyndnar eða ekki. Helgi var skrefi ofar öllum þessum flokkum og lagði iðulega til drepfyndnar greinar, einkum þegar hann rannsakaði táknræn nöfn.
Að öðru leyti er ekki hægt að lýsa ferli Helga, hann er meistari þess að geyma greinar sem reynast gullmolar í fáséðum héraðsritum þar sem engin leið er að finna þær en eitt geta allir verið sammála um og það er að hann er meðal þeirra fræðimanna sem aldrei missir áhugann og er fyrst og fremst rekinn áfram af botnlausum áhuga á efninu fremur en á vegtyllum. Um 1990 fór hann að beina sjónum sínum að sögustöðum og þjóðbrautahugmynd hans er ein af þessum kenningum fræðimanna sem breyta hugmyndum um fortíðina og sagnaritin. Nú segi ég þetta sem maður sem hefur afar litla staðarvitund, næstum jafn lítinn áhuga á landslagi og höfundar Íslendingasagna og veit aldrei um hvaða Breiðabólstað er verið að tala.
Ég er þannig alls ekki markhópur neinna sögustaðakenninga en eigi að síður var bók Helga um sögustaði jólagjafaósk mín og ég fékk hana um jólin og las (já, ég er enn að gera grein fyrir lestrinum fyrir mánuði) og sannarlega er hún eins og fyrri verk Helga morandi í áhugaverðum hugmyndum. Þetta er líka bók sem talar beint í öld ferðamennskunnar, Helgi ræðir sex mikilvæga staði úr þjóðarsögunni og reynir að ná utan um vægi hvers og eins í aldanna rás. Eins og allir vita sem lásu sjóræningjabók Helga á sínum tíma hefur hann líka gott vald á liprum og alþýðlegum stíl og því einfalt að lesa bókina hreinlega eins og skáldverk í stað þess að nota hana einvörðungu sem handbók sem ég mun auðvitað gera héreftir.