Hrundi og fíllinn
Ég hef seinustu ár gert það að nýárshefð að þegar Íslendingar sitja við hið árlega skaup sem mér fannst frábært þegar ég var barn en missti húmorinn fyrir upp úr 2003 er nýárið hafið í Danmörku með bíómyndinni The Party sem Danir kalla Kom og vask min elefant og skartar Peter Sellers í aðalhlutverki. Þetta er ein af þeim myndum sem ég vissi af áður en ég sá hana, pabbi endursagði okkur nokkra brandara úr henni fyrir svefninn eitt sinn, raunar þá sem mér finnst ekki lengur fyndnir í 15. sinnið sem ég sé myndina og eru í upphafi hennar. Þá eyðileggur indverski leikarinn Hrundi Bakshi (leikinn af Peter Sellers) rándýra kvikmyndatöku en þegar hann er klagaður lendir hann óvart á gestalista í fínu Hollywoodsamkvæmi og þar gerist myndin.
Þegar ég var barn þótti Jacques Tati fyndnastur manna og þessi mynd er í hans anda, eins konar aðlögun fyrir skemmrakomna og eiginlega finnst mér hún skemmtilegri en meistaraverk Tati, Playtime, þar sem varla er sagt orð þó að ég viðurkenni snilldina. Í The Party er talað smá, m.a. talar Peter Sellers með sínum fræga indverska hreim sem er vissulega barn síns tíma og ekki beinlínis fyndinn lengur nema stöku sinnum en ég læt hann ekki skemma myndina fyrir mér (enda hef ég ekki trú á því vestræna plotti að ef við biðjum nógu oft afsökunar á slíku muni Asía, Afríka og Suður-Ameríka leyfa okkur að eiga allt og ráða öllu til eilífðarnóns).
Aðalgrínið snýst um ótal smáatvik í hverju horni myndarinnar þannig að hún er kjörin til áhorfs ár hvert. Ég er löngu hættur að horfa á Peter Sellers heldur vel ég nokkrar aukapersónur í senn og fylgi þeim eftir, færi mig lengra og lengra niður listann (í ár voru það m.a. ljóshærðu konurnar á myndinni fyrir neðan). Ómissandi er þó alltaf drykkfelldur þjónn (sést líka á sömu mynd) sem verður æ drukknari, sáraeinfaldur ærslahúmor frá dögum þögulla mynda en er sígildur og við hæfi jafnt kornungra og öldunga.
Persóna Sellers er bæði sá sem iðulega kemur kátlegum atvikum af stað en líka áhorfandi og aðkomumaður sem afhjúpar aðra, eins konar Sellers-útgáfa af umrenningi Chaplins (sem ég hélt reyndar að væri fínn maður þegar ég sá hann fyrst í Hafnarbíói af því að hann var með hatt og í frakka). Í myndinni verður Hrundi að fulltrúa hins framandi sem er á einhvern hátt hreinna og einlægara en bandaríska auðmannasiðgæðið og hlutadýrkunin, það leynir sér ekki að myndin er gerð árið 1968. Ekki er það þó með neinni satíru, Bakshi lýsir aldrei yfir neinni skoðun fyrir utan þegar hann heldur stutta ræðu gegn menningarnámi (cultural appropriation) undir lok myndarinnar (þegar fíllinn er þveginn).
Annars er myndin ekki boðandi og þess vegna líkar mér hún þar sem mér leiðist satíra (formið náði hátindi sínum á 18. öld). Þvert á móti er hún afturhvarf til daga þöglu myndanna þegar bíómyndin var einna líkust ballet og hreyfingin skipti öllu máli. Það sem er sagt er samt mikilvægt líka, t.d. þegar húsið er að fyllast af vatni og auðjöfurinn vill bjarga mikilvægum málverkum en ekki mynd af konu sinni. Eins þegar Hrundi og önnur fyllibytta í myndinni ræða saman um hvort eitthvað sé að finna í botni glasi hennar. Vissulega góð og sígild spurning fyrir allar byttur og afar viðeigandi á nýársnótt, þeim tíma ársins sem flestir staupa sig einna mest.