Skammdegisumræður um sögukennslu

Fyrir fáeinum vikum varð heilmikið írafár í blöðum um sagnfræði, að þessu sinni ekki Írafár um keltnesk áhrif á Íslandi heldur drógu stjórnmálamenn fram glærur sem áttu að sanna áróður í skólakerfinu gegn tilteknum stjórnmálamönnum og jafnvel flokkum. Í kjölfarið hafa fjölmörg viðtöl verið tekin um málið og má velta fyrir sér sanngirni þess þegar fólk sem nýtur áhuga fjölmiðlanna og er reglulega með gjallarhorn þeirra á vörum fer í stríð við venjulegan opinberan starfsmann sem aðeins er þekktur meðal nemenda sinna. Áhugaverðasta innleggið í umræðuna kom frá Súsönnu Margréti Gestsdóttur lektor og fjallar um kennarastarfið:

Nú má taka undir það sjónarmið að stjórnmálamenn og jafnvel flokkar liggja stundum undir ómaklegum árásum og sérstaklega áberandi er hversu margir fjölmiðlar eru furðu samstíga tilteknum stjórnmálaflokkum þegar kemur að vali á meintum aðalumræðuefnum samtímans. Á hinn bóginn voru þessar glærur sem veifað var engin sönnunargögn um eitt eða neitt og það verður að teljast skrítið að stjórnmálamenn og í kjölfarið fjölmiðlar skuli reyna að gera tiltekna kennara tortryggilega vegna þess að þeir hafi verið einu sinni á framboðslista, sérstaklega í ljósi þess að hinir og þessir flokkshundar mæta reglulega í viðtöl titlaðir sem óháðir sérfræðingar eða leiðtogar samtaka.

Þetta er aftur á móti aukaatriði í málinu. Grundvallaratriðið sýnist mér vera að kennarar fái tækifæri til að kenna án þess að hægt sé að ráðast að þeim fyrir tiltekin orð eða glærur sem ekki fela í sér ærumeiðingar. Kvartanir yfir orðum kennara eiga með réttu heima hjá skólayfirvöldum en ekki í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum því að þar fer aldrei nein sanngjörn málsmeðferð fram.

Previous
Previous

Hrundi og fíllinn

Next
Next

Loki í ljótri klípu