Loki í ljótri klípu
Um jólin sýndi norska sjónvarpið The Night Manager (Næturvörðurinn á íslensku — en kannski væri Kvöldvaktin betra?) eftir skáldsögu John Le Carré. Þetta er breskur sjónvarpsþáttur þar sem hvergi er sparað til, í aðalhlutverkum eru Tom Hiddleston, Hugh Laurie, Olivia Colman og Tom Hollander, og John Le Carré sjálfur birtist í einu atriði og ég áttaði mig á því um leið í þetta sinn og gat því notið augnabliksins. Þvílíkir úrvalsleikarar skapa væntingar og ekki síst hjá mönnum eins og mér sem elska Smiley’s People eftir sama höfund með Alec Guinness í aðalhlutverki. Í því tilviki elska ég bókina líka en ég var ekki alveg jafn hrifinn af Kvöldvaktinni hans Le Carré og kannski þess vegna tilbúnari að leyfa þættinum að njóta sín. Talsverður munur er á bók og þáttum, einna mestur sá að drjúgur hluti bókarinnar gerist í suðvesturhluta Englands og snýst um annað líf aðalpersónunnar sem er lykilatriði í að skapa honum sem njósnara trúverðugan bakgrunn en í þættinum er farið mjög hratt yfir þá sögu alla.
Önnur stór breyting er að einum helsta njósnaranum sem í bókinni er ansi hefðbundin Le Carré týpa er breytt í konu og Olivia Colman leikur hana. Ég mundi lítið eftir manninum og finnst þetta snilldarbreyting, þó ekki væri nema vegna þess að Olivia Colman er ein besta leikkona okkar tíma og skín skært í þessu hlutverki. Hún er harðsvíruð og móðurleg í senn (mæður eru iðulega harðsvíraðar), hagsýn en líka einbeitt í sínu verkefni og í lok þáttanna fær hún aldeilis að njóta sín, m.a. í senu þar sem hún ræðst gegn vonda manninum og notar þar meðal annars sagnorðið „discombobulated“ sem er eitt af mínum eftirlætisorðum í ensku og mér tókst að koma haganlega að í The Troll Inside You á sínum tíma, á fullkomlega viðeigandi stað (bls. 151).
Skúrkurinn í þáttunum er vopnasalinn RIchard Roper og er leikinn af Hugh Laurie. Vopnasalar eru býsna góðir skúrkar, hver getur staðið með þeim? Jafnvel fólk eins og ég sem hefur aðrar skoðanir á alþjóðamálum en flestir getur verið með í þessu. Snilldin er auðvitað ekki síst að Hugh Laurie er Bertie Wooster og Dr. House en hann er líka frábær leikari og vopnasalinn hans er verulega óhugnanleg persóna sem á þó jafnframt til góðar hliðar. Hann er hinn fullkomni Iago, vinnur ekki fólskuverkin en kemur þeim til leiðar á bak við tjöldin og telur sig stikkfrían. Síðan ríkir hann yfir hirð sinni eins og konungur og fyrir vikið verða þættirnir prýðileg úttekt á hirðlífi fyrri alda sem ég skrifaði einmitt doktorsritgerð mína um.
Kvöldvaktarstjórann sjálfan leikur Tom Hiddleston og með honum er ekki erfitt að hafa samúð. Mig minnir að í bókinni hafi ríkt aðeins meiri efi um hvort hann væri í raun og veru góður náungi en efinn hverfur alveg úr þáttunum. Persónan er James Bond fátæka mannsins sem allar konur vilja umsvifalaust sofa hjá og hann er líka einna helst rekinn áfram af ást til þeirra. Dálæti vopnasalans á honum er fjarri því að vera óskiljanlegt og þó að Tom sé talsvert laminn í kássu í þáttunum á hann mjög vel heima í óaðfinnanlegum jakkafötum eins og Bond. Ég var að horfa á þáttinn í annað sinn þessi jól og var búinn að jafna mig á öllu sem hafði pirrað mig í fyrsta skiptið, gat því notið þess að horfa á þessa góðu leikara og glaðst yfir því að enn sé hægt að gera góðan sjónvarps Le Carré.