Frekari afhjúpanir á íslenskum dægurlagatextum
Síðunni barst bréf skömmu eftir að ég birti grein mína um eitraða karlmennsku eftirstríðsáranna. Bréfritari vildi að ég afhjúpaði annan dægurlagatexta, lagsins „Hoppsa bomm“ sem Helena Eyjólfsdóttir gerði frægt árið 1972. Sem kunnugt er hefur lagið þetta viðlag: „Á skíðum skemmti ég mér la lalla la, lala lalla la, lala lalla la“, þ.e. viðlagið er einföld fullyrðing um skemmtigildi skíðaíþróttarinnar og síðan mikið lallala. Við því er auðvitað ekki hægt að amast, fátt er betur heppnað í dægurlögum en að mjög mikið sé lallað. Ég minni á hið ágæta lag „Our House“ sem David Crosby heitinn gerði frægt í samstarfi við Stills, Nash og Young. Og hver man ekki eftir Joan Baez syngjandi „The Night They Drove Old Dixie Down“ þó að hennar lala sé eiginlega fremur nana? Svo að ekki sé minnst á smellinn „Live is life“ með austurrísku hljómsveitinni Opus sem var spilað aftur og aftur heilt kvöld í minni blokk fyrir nokkrum árum, svo oft að ég er enn að jafna mig.
Samt verður að segjast sem svo að það er ákveðin leti í þessu skíðaþema Helenu og þeirra Akureyringa í ljósi þess að Hoppsa bomm er alls ekki íslenskt lag heldur þýðing á norsku lagi söngkonunnar Kirsti Sparboe (f. 1946) sem var ómissandi í söngvakeppni sjónvarpsstöðvanna undir lok 7. áratugarins. Frægasta lag hennar er þó ekki úr þeirri keppni en heitir „Stúdentinn frá Uppsölum“ og var gefið út á norsku, sænsku og þýsku en sló aðallega í gegn í Þýskalandi enda hafa Þjóðverjar iðulega skemmtilega skrítinn smekk fyrir annarra manna list. Það er ekkert hoppsa bomm í frumútgáfu lagsins sem gerist við Miðjarðarhafið þar sem enginn dettur á skíðum. Í laginu er aftur á móti (eins og sjá má) orðaleikur þar sem nafn borgarinnar Uppsala rennur mjög eðlilega inn í frekara lalla („En student från Uppsala-lala, la la la la la, la la la la la“). Þetta hunsuðu íslenskir þýðendur lagsins algjörlega og sendu Helenu bara á skíði í staðinn. Enginn stúdent, engir Uppsalir, bara lalla. Ekki stærsta stund íslenskrar dægurlagatextagerðar.