Gunna og Lilja

Þegar ég var barn fengum við að fara í hverri viku á Sólheimasafnið og taka út fimmtán bækur í hvert sinn. Stundum héldum við einni bók eftir í aðra viku en langoftast fóru þær allar lesnar til baka. Þetta var sá tími sem ekki þótti sjálfsagt að eiga margar bækur. Við bræðurnir fengum snemma áhuga á sögu og því sem heitir „áttvísi og mannfræði“ í Þorláks sögu helga þannig að nægt var efnið á safninu en þó held ég að við höfum náð að afgreiða drjúgan skerf af barnabókum safnsins. Einna síst tókum við „stelpubækur“ þar sem þær voru augljóslega ekki fyrir okkur. Síðar eignaðist ég samt systur sem tók út „stelpubækurnar“ og ég las þær þá allar líka. Þess vegna þekki ég bandaríska rithöfundinn Catherine Woolley (1904–2005) sem einnig skrifaði undir nafninu Jane Thayer.

Catherine Woolley nam land á Íslandi árið 1969 með bókinni Gunna gerist barnfóstra sem Oddný Björgólfsdóttir þýddi (hefur væntanlega hafið þann leik þegar hún var sendiherrafrú í Washington en á leitir.is eru þýðingarnar eignaðar alnöfnu hennar sem var flugfreyja). Síðan komu út níu bækur enn um Gunnu til ársins 1978 sem Oddný þýddi allar nema eina. Fjórar af þeim voru Gunna og dularfulla húsið, Gunna og dularfulla ljósið, Gunna og dularfulla brúðan og Gunna og dularfulli kötturinn þannig að augljóslega var höfðað til aðdáenda Enid Blyton. Árin 1977-1979 bættust við þrjár bækur um Lilja (ein þeirra Lilja og njósnarinn) sem Oddný þýddi líka. Þar með var tímabili Catherine Woolley á Íslandi lokið, hún átti ellefu góð ár með þrettán þýðingum.

Á frummálinu heita þær Gunna og Lilja Ginnie og Libbie. Fjórar bækur komu út um Libby frá 1962 til 1974 en tíu um Gunnu og vinkonu hennar Geirlaugu (sem heitir Geneva á frummálinu) frá 1949 til 1973 þannig að Oddný virðist hafa náð dável utan um báða flokkana. Það sem ég man einkum eftir við bækurnar er að þær gerðust í Bandaríkjunum sem við heyrðum annars ekki svo mikið frá á þessum tíma, annað en nú er. New York kom við sögu og þær lentu í ævintýrum á Þorskhöfða í Massachusetts. Þá gerðust bækurnar í samtímanum, þ.e. frá 1950 til 1970 sem var í raun samtími okkar sem fæddust 1970 og vorum enn að lesa íslenskar barnabækur um afa og ömmu í sveitinni. Greinilega eru á ferð eins konar „fúsjón“-bókmenntir, þ.e. sögur þar sem meginatriðið er raunsæisleg lýsing á stelpum og vináttu þeirra en til að krydda leikinn er bætt við njósnurum og dularfullum ljósum. Það eru allnokkrar slíkar sjónvarpsraðir í boði á Netflix um þessar mundir.

Ég þarf að fara á bókasafnið til að lesa þessar aftur þannig að enn er það ógert. Þannig að ég spyr lesendur mína sem ég reikna með að séu einkum konur á sextugsaldri: Eru þær þess virði?

Previous
Previous

Frekari afhjúpanir á íslenskum dægurlagatextum

Next
Next

Íslenskar miðaldabókmenntir eru bókmenntir