Íslenskar miðaldabókmenntir eru bókmenntir

Ein af jólagjöfunum 2022 var greinasafnið Saga, Chronicle, Romance eftir Robert Cook sem var prófessor í ensku við Háskóla Íslands öll árin sem ég var þar stúdent. Hann var líka með skrifstofu í Árnagarði – raunar flottustu skrifstofuna sem var full af glæsilegum bókum og teppum – og við kynntumst af því að hann ákvað að kynnast mér um það leyti sem ég var að flytja úr húsinu (í fyrra sinn) árið 1999. Okkur reyndist koma vel saman þó að Bob væri heyrnardaufur og heyrði einstaklega illa í mér! Stundum tala Íslendingar illa um herraþjóð heimsins að óþörfu, vissulega er margt óþolandi við Bandaríkjamenn en þeirra uppeldi og siðferði hefur líka marga kosti og ýmsir bestu eiginleikar þjóðarinnar komu fram í Bob sem ég kallaði lengi Robert uns hann skammaði mig eitt sinn fyrir að hafa ekki tekið eftir að hann var farinn að undirrita Bob þegar hann skrifaði mér. Því að Bob var einstaklega hreinn og beinn, átti ekki til undirferli og sagði beinlínis það sem hann meinti, burtséð frá því hvort það félli í kramið eða ekki, en yfirleitt glaðlega og svo fullur af góðgirni að erfitt var að hafa það gegn honum.

Sérgrein Bobs var kvæðið Einvaldsóður eftir Guðmund Erlendsson í Felli sem hann hafði verið að rannsaka í hartnær 40 ár og átti hann til að hallmæla séra Guðmundi á Felli heitt og innilega en aldrei virtist honum þó koma til hugar að hann gæti yfirgefið Einvaldsóð. Þess á milli skrifaði hann skarpar og íhugular greinar um Íslendingasögur sem hann las af nákvæmni. Bob var ekki maður hátimbraðra kenninga en samt einn merkasti bókmenntafræðingur sem sinnti fornsögunum frá 1960 og í 50 ár og bók hans mikilvæg fyrir margra hluta sakir. Hann beindi sjónum að persónusköpun, formgerð og áheyrendum sagnanna sem hafa verið vanrækt efni og breytti skilningi manna á þeim, a.m.k. okkar sem lásu greinarnar hans alltaf af mikilli athygli. Ég las sumar á handriti í þakklætisskyni fyrir það hversu oft hann las mínar greinar og lagfærði enskuna en við ræddum efni þeirra líka oft og lengi.

Ég var því að lesa flestar greinarnar í safninu aftur en þær hafa það einkenni góðra texta að batna við endurlestur og eins var það með Bob sjálfan: því betur sem maður kynntist honum, þeim mun betur kunni maður að meta hann. Auk þess átti Bob til að fara með ályktunarorð sem stundum minntu á Íslendingasögurnar hvað varðar fágun og kjarnmikið inntak. Ógleymanlegt er kvöld þar sem hann og fleiri fræðimenn ræddu reynslu sína úr skátahreyfingunni (ég held að ég hafi verið sá eini viðstaddur sem hafði enga slíka) og hefði verið rétt að taka upp þær lýsingar og gera að heimildamynd um þá ágætu hreyfingu en í staðinn bý ég að þessum fróðleik. Bob hafði líka verið í skóla með Rumsfeld landvarnaráðherra Bandaríkjanna og fleiru stórmenni og innsýn hans í bandarísk stjórnmál var merkileg en þar var hann auðvitað útlagi líka því að hans hugmyndir féllu illa að refskák amerískra stjórnmála. Í mengun þessara daga hugsa ég iðulega til Bob og harðrar andstöðu hans við nagladekk sem var eitt fjölmargra mála sem hann hafði afgerandi skoðanir á. Hann hafði áhyggjur af lungnakrabbameini sem hafði herjað á fjölskyldu hans enda varð það honum að lokum að aldurtila. Þá var hann á 79. ári en samt ungur í anda.

Previous
Previous

Gunna og Lilja

Next
Next

Það varð hrun