Það varð hrun
Um jólin sá ég Blue Jasmine á Ríkisútvarpinu en hafði ekki séð þá mynd fyrr. Ekki fær þessi sjónvarpsstöð annars mikinn skerf af mínu áhorfi þessa dagana enda yfirleitt betra efni á norrænu stöðvunum. Myndin er ódæmigerð og áhugaverð, fjallar um konu sem hefur orðið fyrir fjárhagsáfalli og í kjölfarið persónulegu áfalli sem lýsir sér meðal annars í að hún er farin að tala við sjálfa sig sem fyrir daga farsíma með eyrnatappa var óbrigðult merki um að fólk hefði misst tökin á lífi sínu.
Cate Blanchett leikur Jasmine en Sally Hawkins fátæka systur hennar sem hefur goldið fyrir fjárhagslegt undirferli fv. eiginmanns systur sinnar. Samspil auðs og hamingju er mikilvægt þema í myndinni og niðurstaðan kannski sú að Marx hafði rétt fyrir sér og erfitt að leiða hjá sér auðmagnið þegar kemur að lífsgæðum og hamingju. Þó má velta fyrir sér hvort Jasmine var hamingjusöm fyrir fjárhagsvandræði sín. Hún kemur manni fyrir sjónir sem inntantóm, sjálfselsk og blind. Undir lok myndarinnar kemur í ljós að hún var sjálf manneskjan sem reif niður Pótemkíntjöld ævi sinnar en hafði kannski engar forsendur til að takast á við lífið án þeirra.
Þó að myndin sé barmafull af hnyttnum samtölum eins og allar myndir Woody Allen er hún samt ekki gamanleikur heldur hádramatísk og sorgleg og erfitt er að finna ekki fyrir eins konar paþos með hinni sjálfseyðandi Jasmine sem gagnrýnendur líkja iðulega við Blanche í Sporvagninum girnd sem Blanchett hefur einmitt leikið áður. Ef myndina er enn að finna á VOD-inu þegar þið lesið þessi orð ættuð þið ekki að láta hana fara framhjá ykkur. Þetta er ein greindarlegasta, alvarlegasta og mikilvægasta mynd síðasta áratugar.