Rödd James Mason

Rétt fyrir jól hélt ég Youtube-ævintýrinu áfram og endurnýjaði kynnin við sjónvarpsþætti um Hollywood sem eru allir þar og voru sýndir í Sjónvarpinu sumarið 1982. Þessir þættir eru alls þrettán og fjalla um þöglu myndirnar sem sérstaka tegund listaverka — eins og Alfred Hitchcock heitinn sagði á sínum tíma í samtali við Truffaut er kvikmyndin listform sem snýst um að sýna fremur en segja og í kvikmynd á ekki að tala of mikið. Þessir heimildarþættir voru teknir undir lok 8. áratugarins þar sem margir lifðu enn sem tóku þátt í blómaskeiði þöglu kvikmyndanna og njóta þess svo sannarlega en um leið er áherslan á að sýna úr myndunum og greina. Þulur er svo breski leikarinn James Mason og það var ekki síst hann sem ég vildi heyra í aftur.

James Mason var enn á lífi þegar ég var barn og ég elskaði hann af þeirri ástríðu sem börn elska fyrst og fremst gamalt fólk — kannski eftir að þau hafa áttað sig á að það er fyrst á förum? Hann hafði einstaka rödd sem ég sakna svo mikið að ég hlustaði um daginn á Desert Island Discs á Spotify með honum. Nýlega skrifaði ég um Agötuaðlaganir jólanna og þá mátti sjá James Mason í Evil Under the Sun en auðvitað hef ég séð hann í ýmsu öðru. Mason lék iðulega svolítið vafasama karaktera, ekki ósvipað og Baldvin Halldórsson á Íslandi. Jafnvel þegar persóna hans var jákvæð grunaði mann að hún hefði eitthvað óhreint í pokahorninu.

Í Hollywood-þáttunum er vitaskuld engin persónusköpun hjá sögumanni, hann bara talar. Þar að auki er drjúgur hluti þáttanna myndir úr myndunum vegna þess að höfundar þeirra vita að kvikmyndir eiga ekki að vera eingöngu talandi hausar. En alltaf öðru hvoru tekur James Mason til máls og það yljar okkur aðdáendum hans.

Previous
Previous

Það varð hrun

Next
Next

Loksins, loksins!