Loksins, loksins!

Flestir miðaldafræðingar og líklega sagnfræðingar og bókmenntafræðingar þekkja það vel að vel meinandi fólk kemur aðvífandi og vill vekja athygli á einhverjum þætti menningarinnar sem lítið hafi verið fjallað um. Bregst þá ekki að þetta reynist vera eitt af því sem fræðimenn hafa fjallað langmest um af öllu og stundum mun meira en vert væri. Sjálfsagt er þetta ekki bundið við okkur sem sinnum sögunni og menningunni heldur er almennt einkenni á vísindafréttum og hversdagsumræðu um vísindi en kom mér í hug nýlega þegar bók um Kelta og Ísland var kynnt og rædd á þeim forsendum að hér væri á ferð fullkomlega vanrækt efni. Í kjölfarið gat maður lesið á samfélagsmiðlum að sérstaklega málvísindamenn hefðu hunsað keltnesk áhrif á íslenska tungu.

Bókin hér að ofan kom út árið 1997 og heitir Um haf innan en er eftir Helga Guðmundsson prófessor. Sennilega er hér á ferð lengsta og rækilegasta rit sem íslenskur málvísindamaður hefur sent frá sér á íslensku og þar eru einmitt keltnesk áhrif á íslenska tungu í brennidepli en raunar hafði Helgi áður sent frá sér aðra bók þar sem þetta var líka rætt. Vísindaleg rit fá sjaldan næga athygli en um þessa bók var þó allnokkuð fjallað á sínum tíma sem er reyndar ekki fjarlæg fortíð og varpar nokkru ljósi á hversu fáránleg opinber umræða um íslensk fræði getur verið.

Helgi er raunar ekki eini íslenski fræðimaðurinn sem hefur gert þessu efni talsverð skil. Eins og sést á auglýsingunni hér að ofan (sem hefur það viðbótargildi að mín eigin nær uppselda bók er þarna líka!) gaf Hermann Pálsson líka út bók árið 1997 sem heitir Keltar á Íslandi. Ég er að hugsa um að leyfa lesendum sjálfum að geta sér til um hvað hún fjallar. Þriðjungur af bókunum í þessari auglýsingu fjallar raunar um tengsl Kelta og Íslendinga og vegna þess að ég hef lesið þær allar þá veit ég að það er líka drepið lauslega og stutt á þessi tengsl í fleiri bókum á myndinni. Það er með ólíkindum að þetta sé kallað þöggun í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.

Ég las líka á netinu að þó að ágætir fræðimenn hefðu vakið athygli á þessum tengslum hefði því alltaf verið tekið með þögn og fálæti. Í því ljósi er áhugavert að sjá opnuviðtal DV við Gísla Sigurðsson frá árinu 1986 á myndinni hér að ofan. Hvað ætli það fjalli nú um?

Rétt er því að setja fram aðra atvikalýsingu: Íslendingar elska hugmyndina um að við séum skyld Keltum og hafa fátt meira rannsakað og fjallað um a.m.k. seinustu sextíu ár — þó að alltaf megi rannsaka meira ef ný gögn eða áhugaverðar túlkanir koma fram. Þar hafa málvísindamenn sannarlega ekki legið á liði sínu. Eins mætti draga af þessu þá ályktun að afar lítið sé að marka fjölmiðlaumfjöllun um vísindi og hverju er slegið upp sem glænýju umræðuefni þar.

Previous
Previous

Rödd James Mason

Next
Next

Kúlturbörn og menningarumræða