Kúlturbörn og menningarumræða

Fyrir jól skapaðist skammvinn umræða um menningarauðmagn þegar einn rithöfundur sakaði annan um að vera „kúlturbarn“ en tefldi á móti eigin myrku fortíð í fíkniefnaheiminum. En hinn höfundurinn og allir aðrir sem tóku til máls í umræðunni reyndust líka eiga skuggalega fortíð og umræðan var fljótt komin á kunnuglegar brautir 21. aldar keppninnar um hver sé mesta fórnarlambið. Eftir stendur það eitt að enginn vill vera „kúlturbarn“ en það hefði verið áhugavert að halda áfram með hana og ræða hvað telst vera menningarauðmagn á Íslandi, sérstaklega þar sem misnotkun orðsins „valdastétt“ er síst minni hér á Íslandi en í Bandaríkjunum þar sem Trump sannfærði hluta Bandaríkjamanna um að kjósa forríkan pabbadreng væri besta leiðin til að koma höggi á „elítuna“ sem var skilgreind sem fólk sem hefði jafnvel nennt að læra í skólanum og ná góðu prófi.

Umræðunni um „valdaöfl“ og „elítur“ er skemmtilega oft haldið uppi einmitt af „kúlturbörnum“ sem eru alin upp í Þjóðleikhúsinu eða Ríkisútvarpinu en hafa samt ríka þörf fyrir að leika minnimáttar sem stundum minnir á lítt skiljanlega þörf Justins Trudeau á yngri árum fyrir að mæta í partí makaður út í skósvertu. „Valdaöflin“ eru yfirleitt allir nema maður sjálfur og orðinu er haldið uppi af byltingarmönnum úr prófessorabústöðum, fullorðum börnum fornra ráðherra og þingmanna og reyndar yfirleitt fólki sem hefur alla ævi haft flestum öðrum betri aðgang að gjallarhorni samfélagsumræðunnar. Heilu fjölmiðlarnir taka stundum þátt í því þegar fólk sem fær hvern sinn fret á netinu beint í fjölmiðla sviðsetur eigin hetjuskap andspænis ofsóknum annarra í opinskáum viðtölum eða í einræðum í sýndarveruleikanum. En í samfélagi þar sem heyrist í langfæstum blasir auðvitað við að allir sem skrifa í fjölmiðla eða verða að frétt með því einu að ybba gogginn á fésbók eru augljóslega í mjög fámennum og harðlokuðum forréttindahópi þeirra sem hin einsleita stétt íslenskra fjölmiðlamanna les. Hin raunverulega lágstétt er aftur á móti hvergi sýnileg í neinum fjölmiðli og velta má fyrir sér hver virðing sé henni sýnd þegar augljós „nepo babies“ samkvæmt amerískum skilgreiningum og stöðlum geta athugasemdalaust krýnt sig sem helstu málsvara hennar.

Það er gott að farið sé að ræða menningarauðmagn en grunnhyggin umræða er stundum verri en engin. Það á til dæmis við um tilraunir, jafnvel meðal fólks í menntakerfinu, til að skilgreina fólk sem er ekki er til vandræða í téðu kerfi sem „elítu“. Í þessari umræðu getur fólk (aðallega eldri konur) með fjölmargar háskólagráður verið hluti af „elítunni“ vegna mikils menningarauðmagns en samt á lægra kaupi en þeir sem flosnuðu upp úr skóla og tóku eiturlyf.

Íslenskri samfélagsumræðu er bæði nú og alla mína hundstíð að verulegu leyti haldið upp af fólki sem átti fræga foreldra og hafði vit á að eyða ekki tímanum í einskismetið nám. Eins eru helstu hetjur samfélagsumræðunnar á 21. öld iðulega endurfæddir eiturlyfjaneytendur og allra helst þeir sem telja sér hafi verið „slaufað“. Gæti einhverjum þótt írónískt að hinir slaufuðu séu ólíkt meira áberandi en við hin sem aldrei hefur verið slaufað. Á öld píslarvotta leynist nefnilega heilmikið menningarauðmagn í slaufuninni.

Previous
Previous

Loksins, loksins!

Next
Next

Klukkutími væmninnar