Klukkutími væmninnar
Árið 1987 dó útvarpsþátturinn Óskalög sjúklinga drottni sínum eftir 36 ár á dagskrá, lengst á laugardagsmorgnum. Kannski er það andartakið sem eftirstríðsárunum og fullveldismóralnum lauk og í staðinn hófst tímaskeið sem einkenndist af velmegun, nihilisma, uppskafningslegum svargráum byggingum og frjálsri fjölmiðlun sem fljótlega varð að lægsta mögulega samnefnara. Óskalög sjúklinga höfðu lengi þótt eitt mesta hallæri á landinu og mikið var vitnað í sjálfan Halldór Laxness sem átti að hafa spurt hvort aldrei yrði músíkalskur maður veikur á Íslandi.
Sannarlega voru sjúklingar stöðugir í smekk sínum. Öll mín uppvaxtarár var beðið um lagið „Ömmubæn“ með Alfreð Clausen í hverjum einasta þætti og „Bíddu pabbi“ með Vilhjálmi Vilhjálmssyni var líka sívinsælt. Að lokum bættist „Í bljúgri bæn“ með Rut Reginalds í hópinn. Öll þessi lög áttu það sameiginlegt að vera óhemju væmin enda var þetta líka tíminn sem Húsið á sléttunni var á dagskrá alla sunnudaga og Karl Ingalls stjórnaði borðbæn á sínu heimili. Að þessu var mikið hlegið, fátt skemmti gárungunum meira en öll þessi væmni. Það var ekki fyrr en við lifum í samfélagi gárunganna að maður er næstum farinn að sakna „Ömmubænar“.
Samfélag Óskalaga sjúklinga var ósköp fátæklegt og pokalegt miðað við nútímann og væmnin er horfin úr tísku en í stað klukkutíma sem var helgaður fólki sem þótti eiga bágt kom meinhorn og síðar Þjóðarsál, allir fjölmiðlar fylltust af níðingum og fórnarlömbum og samfélagsumræðan varð að langlífum húsfélagsfundi sem stendur enn og er hálfu verri en væmnin.