Júpíter skín skært
Eftir að ég hafði lesið allar fjórar jólagjafabækurnar sem ég hef undanfarið rætt á þessari síðu (og eina enn sem ég vil ekki ræða vegna þess að ég þekki höfundinn) dró ég upp gamla vini til að vera með rétt fyrir svefninn en það voru þeir Júpíter Jones, Pete Crenshaw og Bob Andrews í Njósnaþrenningunni (Drei Fragezeichen á þýsku þar sem þeir eru vinsælli en í heimalandinu). Þessar bækur keypti ég um árið af góðum fornsala en þær voru til heima hjá mér í bernsku (raunar í sama skáp og bækur Nancy Mitford sem ég ræddi líka nýlega). Ég las þær allar en var samt skíthræddur við þær, einkum Leyndardómur skrýtna skuggans þar sem söguhetjurnar rekast á dularfulla veru með afskræmt höfuð og tryllingslegan hlátur. Bækurnar eru hinn þægilegasti kvöldlestur þar sem þær eru mjög stuttar (um 140-50 bls.) en raunar alveg útbíaðar í prentvillum. Þær eru samt ágætlega þýddar af Þorgeiri Örlygssyni síðar forseta hæstaréttar sem þá hefur verið um tvítugt.
Líklega þarf alvarlegri vettvang til að greina bækurnar í þaula en ég ætla að minnast á nokkur atriði sem mér fellur vel við. Aðalpersónan heitir því áhrifamikla nafni Júpíter Jones og hann er feitlaginn. Í öllum öðrum barnabókum frá sama tíma var söguhetjan grönn en átti stundum feitan vin (t.d. Erlingur Krag sem er vinur Jóa í Jóabókunum) sem iðulega datt mikið en átti þó til óvæntan hetjuskap. Í Njósnaþrenningarbókunum er líka skýr aðgreining milli þess að vera fróður og greindur. Það er Bob Andrews sem aflar upplýsingana en Júpíter sér um greiningu og ályktanir. Annað sem er áhugavert er að Júpíter býr hjá frænku sinni og frænda og það er aldrei skýrt hvers vegna. Mér leiðast ofskýringar í bókum vegna þess að ég trúi á hinn virka lesanda sem kann að botna. Augljóslega kom eitthvað fyrir foreldra Júpíters — en hvað? Við fáum aldrei að vita það. Þriðja sem er áhugavert er að drengirnir í bókinni eiga andstæðing sem heitir Huganay og metur þá mikils og býður þeim reglulega samstarf á mefistófelískan hátt. Í fjórða lagi birtast reglulega erlendir drengir sem eru áhugaverðar persónur — í frumtextanum töluðu þeir gjarnan asnalega (bækurnar finnast á frummálinu á austur-evrópskum síðum, eflaust stolnar) en Þorgeir hefur þýtt það allt út úr íslensku bókunum. Í einni af þeim fimm sem til voru á okkar heimili var það bláfátækur mexíkóskur strákur, í annarri bláfátækur grískur strákur sem er köfunarmeistari en þeirri þriðju var aðkomudrengurinn enskur og ríkur. Ein bókin fjallar beinlínis um glæpi gegn öðrum kynþáttum.
Fátt er aftur á móti um kvenpersónur í bókunum fyrir utan Matthildi frænku en þær fáu sem birtast eru góðar. Bækurnar eru samdar á þeim tíma þar sem konur máttu ekki birtast í bókum án þess að karlhetjan yrði ástfangin og höfundur hefur sjálfsagt viljað forðast það (af sömu ástæðum eru engar stelpur í Flugnahöfðingjanum).
Mikil áhersla er á orðaleiki í bókunum sem þýðast misvel en Þorgeir á hól skilið fyrir eftirminnilegu setninguna „Lítið undir steininn bak við beinin. Þar er kassi sem hefur ekkert lok“ í Leyndardómi Svartskeggs sjóræningja. Sú bók er sú fyrsta sem ég las og held mikið upp á síðan. Ég sá hana gagnrýnda á netsíðu nokkurri fyrir að vísbendingar hinna sjö páfagauka væru ekkert sérstaklega góðar og það er kannski rétt en mikið fannst manni þær spennandi á sínum tíma. Önnur gagnrýni sem ég rakst á var á Leyndardóm skrítna skuggans og hún var sú að lausnin væri fáránleg. Aftur verð ég að viðurkenna að það er rétt (skúrkurinn reynist vera með ástralskan cookaburra-fugl á öxlinni sem hlær eins og mannvera) en mikið var maður skelfdur við þennan skrítna skugga á sínum tíma!
Ein af ástæðunum fyrir að bækurnar vöktu forvitni mína á sínum tíma var að sjálfur Alfred Hitchcock var eins konar kynnir bókanna — þegar ég las þær hafði ég engar kvikmyndir hans séð — en er alltaf kallaður kvikmyndaframleiðandi fremur en leikstjóri. Einhverjum netgagnrýnendum finnst þetta ódýr brella en hún virkaði sannarlega á mig. Þetta hefur líka þau áhrif að hægt er að ljúka málunum snögglega en svo er eftirmáli þar sem annað hvort Hitchcock eða Júpíter skýrir allt samhengi málsins og rekur hvernig fór fyrir persónunum.