Hlaðvarpsformið og bókmenntaprófessorinn

Ég hef látið ýmsa drauma rætast seinustu ár. Í upphafi ársins sem ég varð fimmtugur ákvað ég að nú væri tími kominn til að reyna mig við hitt og þetta og nokkrum af þeim ráðagjörðum tókst mér að hrinda í framkvæmd. Þar af lengi hafði mig lengi dreymt um að vera með hlaðvarp og mér tókst að fá styrk úr nýstofnuðum samfélagsvirknisjóði til að hrinda því úr vör með því að fá Gunnlaug Bjarnason mér til fylgis því að ég vissi sem var að í slíkum þáttum skiptir samspil viðmælenda öllu máli og ég batt vonir við að Gunnlaugur sem er vanur að koma fram kæmi með þetta plús ex í þáttinn sem mig vantaði. Til varð hlaðvarpið Flimtan og fáryrði en ég skipulagði öll umfjöllunarefnin fyrirfram og langflestir þættirnir voru byggðir á einhverju sem ég hafði áður eytt drjúgum tíma í að kynna mér, á þeim forsendum að prófessorar eins og ég ættu ekki að þykjast vera eitthvað annað.

Tæknikunnátta Gunnlaugs kom að góðum notum en minn eigin undirbúningur hafði fyrst og fremst falist í að hlusta á önnur hlaðvörp, ekki síst Bíó tvíó Steindórs Jónssonar og Andreu Bjarkar Andrésdóttur þar sem þau ræddu allar íslenskar kvikmyndir. Ég bjó í kjölfarið til ýmsar reglur. Ein var sú að þættirnir ættu ekki að vera lengri en u.þ.b. 25 mínútur (við höfum brotið hana nokkrum sinnum). Sú regla var sótt til bandarískra hlaðvarpsmanna sem fjölluðu um áhugaverð efni en möluðu endalaust, jafnvel í tvo klukkutíma um eina bók. Auðvitað vilja margir meira efni en þeir geta þá hlustað á marga þætti í einu. Önnur var sú að hlaðvarpið mætti stundum fara út um víðan völl en þó hafa ævinlega akkeri í tilteknu þema eða frásögn sem var fyrirfram ákveðin. Þar nýtti ég mér gildi bókmenntaumfjöllunar yfirleitt því að hún hefur það umfram sum önnur fög að vera með texta í miðjunni sem er iðulega sú gólfmotta sem öllu heldur saman.

Þriðja reglan var að ég ætti aldrei að vera of kennaralegur þó að við Gunnlaugur séum samt í hefðbundum hlutverkum magisters og discipulusar sem sótt eru til Elucidarius og annarra fróðleiksrita miðalda. Þvert á móti ætti lesendum að líða eins og þeir hefðu villst á kaffistofu þar sem við Gunnlaugur værum að rabba saman í mesta bróðerni. Raunar hef ég reynt að hafa mína tíma í Háskólanum í svipuðum anda en í hlaðvarpinu gengur það óvenju vel vegna þess að sömu menn eru alltaf við hljóðnemann.

Þættirnir eru nú orðnir 36. Með góðum stuðningi og vilja verða þeir kannski 50 á árinu. Hlustendum er velkomið að hafa samband og setja fram óskir um efni.

Previous
Previous

Júpíter skín skært

Next
Next

Spennusögur á Brexitöld