Spennusögur á Brexitöld
Á jólunum náði ég að lesa einar fimm bækur sem ég fékk í jólagjöf á fjórum dögum og hef þess vegna úr nógu að moða þessa dagana. Ég er ekki viss um að þær verði allar varanlegar í bókasafni mínu en ánægjulegt fannst mér að komast gegnum þær allar. Ein bókin var Maðurinn sem dó tvisvar eftir Richard Osman sem ég þekki sjálfur úr Pointless á BBC Nordic. Í þeim þætti kemur Osman fyrir sem geðþekkur og greindarlegur maður sem ég var meira en til í að lesa eitthvað eftir. Á hinn bóginn rifjaðist upp fyrir mér þegar ég fór að lesa að ég hafði áður lesið eina bók í flokknum og mundi ekkert eftir henni fyrr en ég las þessa. Seinni bókin reyndist vera auðlæsileg en ekki beinlínis það sem ég myndi kalla bókmenntir (en í allra stysta máli eru það bækur sem maður man eftir að hafa lesið af því að þær sögðu manni eitthvað).
Eitt sem ég tók eftir er fjöldi morða í bókinni sem var óþarflega mikill og algjört samúðarleysi með „vonda fólkinu“ sem fékk á baukinn. Nú má vera að Osman sæki þetta til Roalds Dahl en ég get ekki annað en tengt þetta við Breta á Brexittímum, hvernig öll orðræða manna einkennist af svarthvítri hugsun og fullkomnu óþoli fyrir öllu sem er utan eigin skoðanapakka. Af þessu er ég fremur þjakaður á samfélagsmiðlum og í Bandaríkjunum er þetta eins nema þar er Trump miðdepill ósættisins. Vandi minn gagnvart þessu öllu er ekki aðeins hatur á skoðanapökkum heldur líka að í ýmsum málum stend ég með hvorugum enda hinir andstæðu pólar stundum mun líkari en þeim finnst sjálfum og allt minnir þetta svolítið á tímann hér á landi þegar ætlast var til að maður veldi milli Davíðs Oddssonar eða Jóns Ásgeirs.
Auðvitað er Osman vorkunn, bækur hans hafa selst í milljónavís og hann getur sennilega lifað góðu lífi á þeim héðan í frá. Ekki er hægt að ætlast af slíkum „bestsellerum“ að þeir séu beinlínis bókmenntir, ekki frekar en áramótaskaupið getur verið annað en lægsti mögulegi samnefnari þó að stundum sé hann aðeins hærri en vant er. Eins hlýtur margt það sem selst í bílförmum að endurspegla hinn þreytandi samfélagsmiðlamóral en ég vil helst vera laus við hann þegar ég nýt listar. Mér fannst hann líka skjóta upp kollinum í Glass Onion, framhaldi hinnar prýðilegu myndar Knives Out, sem ég tók þátt í að koma á Netflixtoppinn á Íslandi í janúarbyrjun. Þar er Daniel Craig í aðalhlutverki og sannar vissulega að hann getur leikið fleira en James Bond. Eins eru hnyttnir brandarar hér og þar, einkum í upphafi þegar glensað er með covid. Að lokum endar myndin samt á að veita einhverri Elon Musk týpu ráðningu en sá náungi er mikill miðdepill samfélagsmiðlaæsings sem ég á erfitt með að fá áhuga á.
Frásagnaraðferðin er lík og í Knives Out en allt er þetta frekar gervilegt og ég var búinn að taka upp símann minn og skoða „Grammið“ áður en myndinni lauk. Viðleitnin við að falla amerískum eða ameríkaníseruðum twitternotendum í geð á ódýran hátt var of augljós og menn fá engin prik lengur fyrir það sem ég hældi Die Hard fyrir í nýlegum pistli. Fyrir utan að sú mynd er bara svo ólíkt miklu betri.