Má ekki eyða

Eftir að ég fann Youtube á sjónvarpinu mínu (sjá fyrri pistla) hef ég gerst ævintýragjarn að leita uppi illfinnanlegt efni sem mig hefur alltaf langað til að sjá. Þannig fann ég að lokum kvikmyndina Looking for Mr Goodbar sem er fræg en ég hef aldrei séð en því miður fór hún fyrir ofan garð og neðan hjá mér þar sem eintakið var svo lélegt. En ég gróf líka upp kvikmyndina Permanent Record með Keanu Reeves (færri vita að ég og ráðherrann í fjölskyldunni vorum um hríð forseti og varaforseti eins mikilvægasta aðdáendaklúbbs Keanu á Íslandi) en hún fékk á sínum tíma talsvert lof gagnrýnenda og sérstaklega leikur hans þó að hún muni aldrei hafa verið sýnd á Íslandi. Nafnið vísar til frasa sem er talsvert notað í bandarískum skólum en er raunar líka notaður í skjalafræðum yfirleitt en myndin fjallar um sjálfsmorð. Kannski er það þess vegna sem ég hef tafið þangað til nú að leita hana uppi.

Kvikmyndin fjallar um tvo venjulega menntaskólanema — ég gekk út frá því að þetta væri menntaskóli en það getur verið erfitt að vita þar sem í Bandaríkjunum eru menntaskólanemar ævinlega leiknir af 25 ára leikurum og ég fann ekki nema ótextaða gerð myndarinnar — sem heita David og Chris. David er foringinn en Chris (leikinn af Keanu) sprellarinn sem fylgir honum. Í fyrsta þriðjungi myndarinnar er David aðalpersónan og við fylgjum honum meira og minna. Hann á eins konar kærustu sem er þó frekar bara hjásvæfa, hefur tónlistarhæfileika og hefur verið tekinn inn í góðan skóla, er góður við litlabróður sinn og er almennt vel liðinn af öllum. Þó sér glöggur áhorfandi sem veit hvað gerist að eitthvað er ekki í lagi. Til dæmis gleðst hann ekki yfir góðum fréttum og á greinilega margt ósagt við hina og þessa. Myndin sýnir þetta frekar en fóðrar okkur og hún veitir enga endanlega skýringu eða lausn á því sem síðan gerist. En þegar við höfum vanist honum sem aðalpersónu í ríflega hálftíma stekkur hann fyrir björg. Síðan sést hann ekki meir. Það er ekkert endurlit eða slíkt, hann er bara horfinn, við sjáum varla mynd af honum, og þessi þrúgandi fjarvera hans er það sem veitir myndinni styrk sinn.

Við sjáum David ekki einu sinni stökkva, hann bara stendur á bjargbrún og svo er hann horfinn og Chris sem ætlaði að gera honum bylt við heldur fyrst að þetta sé slys sem hann hafi jafnvel valdið. Síðar fær hann póst frá David sem bendir til að þetta hafi verið sjálfsmorð og þá þurfa hann og allir aðrir að glíma við það. Eftir það er Chris/Keanu aðalpersónan ásamt tveimur stúlkum í vinahópnum. Þau eru ráðvillt og fá enga hjálp frá hinum fullorðnu sem finnst sjálfsmorð skammarlegt og vilja þagga það niður, jafnvel af góðum hug til að koma ekki af stað sjálfsmorðafaraldri. Skólastjórinn er þannig ágætur maður en neyðist á einum tímapunkti til að reka Chris/Keanu úr skóla vegna skapofsa hans.

Myndin sýnir vel hversu góður leikari Keanu var áður en hann lék í Speed og Matrix og varð Harrison Ford nýrrar kynslóðar. Í seinni hluta myndarinnar kemur þannig skýrt fram hversu mjög hann þarfnast Davids þó að það sé aldrei beinlínis sagt og eins hversu flóknar tilfinningar hans eru gagnvart sjálfsmorðinu. Að lokum tekur hann á stóra sínum en ekki á neinn augljósan hátt, myndin er hæfilega lágstemmd og öfugt við flestar hinar „raunsæju“ bandarísku kvikmyndirnar er fátt í henni sem gæti ekki gerst í raun.

Ég var ánægður að sjá hana loksins og sterkast fannst mér að láta David hverfa alveg eftir að hann hefur gnæft yfir allt sögusviðið, þannig nær leikstjórinn Marisa Silver sem yfirgaf víst kvikmyndaheiminn skömmu síðar og gerðist smásagnahöfundur — hvílíkur atgervisflótti en kannski skiljanlegur — að miðla missi á trúverðugri hátt en vant er á hvíta tjaldinu.

Previous
Previous

Spennusögur á Brexitöld

Next
Next

Kirkjurottur