Kirkjurottur

Skömmu fyrir jól lést enski rithöfundurinn og myndlistarmaðurinn Graham Oakley sem er nánast óþekktur á Íslandi og ég hefði varla þekkt heldur nema vegna þess að einn vinur minn ólst upp á Englandi og er harður áróðursmaður fyrir eigin smekk. Hann lánaði mér sem sagt sínar bækur og ég er þakklátur honum því að Graham Oakley er þess virði að kynnast, bæði vegna þess að barnasögurnar sem hann skrifar eru sérstæðar og iðulega ófyrirsjáanlegar en líka vegna þess að handbragðið á myndunum hans er einstaklega vandað og segja má að hann sé að flytja skrautlega málaralist fyrri alda inn í barnabókaheiminn.

Mér sýnist á netinu að Oakley hafi sent frá sér einar fimmtán myndabækur fyrir yngri lesendur, þar af þrjár um refi en tólf um kirkjurottur sem hann hóf að senda frá sér á fimmtugsaldri. Þetta eru raunar mýs en ég kalla þær kirkjurottur vegna máltækisins sem á íslensku snýst um rottur en á ensku um mýs. Kötturinn Sampson er ekki ómerkilegri persóna í bókaflokknum en mýsnar en hann er vinur þeirra og bandamaður eftir að hafa hlustað á ófáa messuna og tileinkað sér boðskap þeirra. Það sem einkennir flokkinn er nauðsyn þess að fara ekki hratt yfir sögu heldur rýna rækilega í myndirnar um leið og sagan er lesin.

Nú er mörgum barnabókahöfundum illa við orðið „myndskreyting“ og ef litið er til verka Oakleys skilst það vel því að þó að textinn í bókunum sé prýðilegur stendur hann ekki einn sér án myndanna. Vinsældir bókanna kölluðu auðvitað á framhald en Oakley var þó ekki tilbúinn til að teygja lopann endalaust og dró sig að mestu leyti í hlé um sjötugt en var 93 ára þegar hann lést í desember. Kannski er kominn tími til að hleypa bókum hans til Íslands?

Previous
Previous

Má ekki eyða

Next
Next

Mitfordsystur og Fellowesfeðgin