Mitfordsystur og Fellowesfeðgin

Ein jólagjöfin sem ég fékk þetta árið var þriðja af fimm bókunum í röðinni The Mitford Murders eftir Jessicu Fellowes en hún er dóttir Julian Fellowes, handritshöfundar Downton Abbey. Hann er sérfróður um notkun hnífapara meðal aðalsins á öndverðri 20. öld þannig að ekki þýðir að lesa Mitfordmorðin í leit að villum. Eins og pabbinn er Jessica líka lipur penni en ekki get ég þó sagt að mér finnist þetta vera bókmenntir frekar en annað „fan fiction“ — bókaflokkurinn er augljóslega reistur á þeirri staðreynd að Mitfordsystur eiga allstóran aðdáendahóp sem er hugfanginn af þeim og ég er vissulega í þeim hópi þannig að ég notaði tækifærið eftir að hafa lesið bókina og horfði í annað sinn á ágæta heimildarmynd um Nancy Mitford sem finna má á youtube en þar má sjá fjórar af fimm systrunum. Einnig mæli ég eindregið með viðtölum við Diönu Mosley þó að ekki væri nema vegna þess að hún er glæsileg kona, einstaklega iðrunarlaus og eins ólík Hollywoodímynd nasista og hugsast getur.

Ef fólk vill lesa bækur til enda er Mitfordsería Jessicu Fellowes tilvalin en ég get þó ekki sagt að ég muni mikið eftir bókinni þremur vikum eftir lestur þannig að í þessu tilviki hefur raunveruleikinn vinninginn og þó ekki. Frægð Mitfordsystra grundvallast nefnilega á „autofiction“ Nancy Mitford (1904–1973) um þær systur, aðallega skáldsögunum The Pursuit of Love, Love in a Cold Climate og Don’t Tell Alfred. Tvær af þessum bókum voru til á bernskuheimili mínu og ég las þær sem unglingur. Ég hef líka þá bernskuminningu að hafa horft á fyrsta þáttinn í góðri sjónvarpsgerð bókanna kvöldið áður en Engihjallaveðrið brast á í febrúar 1981. Það var vegna þess að pabbi var ekki heima en þegar hann var erlendis leyfði mamma okkur að horfa á fullorðinssjónvarp með sér og því sáum við sjöunda þáttinn líka í annarri utanlandsferð hans. Hvorugu þeirra hugkvæmdist þó að leyfa okkur að horfa á þætti 2-6 eða 8 og ekki man ég eftir að hugkvæmst að biðja um það. Seinna eignaðist ég þættina á dvd og horfði á allt saman en í þessum þáttum frá 1980 lék Judi Dench mömmuna sem líka birtist í Mitfordmorðunum.

Börnin í þessum bókum eru augljóslega Nancy og systkini hennar en síðar skrifaði Jessica systir hennar sjálfsævisögu um þetta sama fólk og gerði fjölskylduna mun reiðari með því en skáldsögurnar höfðu áorkað. Kannski sýnir þetta yfirburði skáldskaparins því að enginn í fjölskyldunni efast um að skáldsögur Nancy séu jafn sjálfsævisögulegar og bók Jessicu.

Líklega er það þrennt sem einkum heillar fólk við Mitfordsysturnar: 1. Þau systkini voru alin upp án skólagöngu og voru þvottekta sérvitringar. 2. Þau tilheyrðu breska aðlinum og heilla þess vegna, svipað og kóngafólkið en kannski með meiri rétti þar sem þau eru beinlínis skemmtileg sem kóngafólkið er ekki. 3. Þau endurspegla öfgar 20. aldarinnar því að þrjú systkinin voru nasistar en tvær systur voru sósíalistar og kommúnistar (ein hugsaði bara um dýr og er minna umdeild). Nancy skrifaði líka bráðskemmtilegar og mjög lærðar ævisögur á síðari hluta ævinnar og varð fræg fyrir að vera ein þeirra fyrstu til að vekja athygli á stéttbundinni enskunotkun sem fram að því hafði ekki verið rædd opinberlega.

Hefðu systurnar vakið viðlíka athygli ef þær væru af alþýðustigum og töluðu ekki ensku sem flestir halda að sé aðeins til í bíómyndum? Líklega ekki en aðalsuppruni þeirra er svo mikill hluti af þeim að það er tómt mál að ímynda sér þær án hans. Þær eru líka fullar af írónískri fjarlægð á hann og bæði Nancy og Jessica voru mjög góðir höfundar þó að þær læsu víst frekar lítið yfir. Þó að þær séu ekki síst að skrifa um eigin fjölskyldu (en báðar raunar síðar um önnur efni) þá eru þetta samt bókmenntir vegna þess að þær eru að takast á við eigin uppruna af nokkurri alvöru í bland við léttúðina. Ég veit ekki hvort það sama eigi við um Jessicu Fellowes en það er þó ekkert leiðinlegt að lesa hana frekar en að horfa á Downton Abbey.

Previous
Previous

Kirkjurottur

Next
Next

Agötuaðlaganir jólanna 2022