Merkir edda langamma?

Ég er orðinn svo gamall að ég nenni ekki að skrifa 10 bls. grein í Íslenskt mál þar sem þessari spurningu yrði svarað með rækilegum tilvísunum til allra sem hafa fjallað um málið. Hef ekki heldur fengið boð um að skrifa í afmælisrit Árnastofnunar nýlega þannig að niðurstaðan er ég blogga bara og vona að þeir sem vilja fræðast rati hingað með hjálp leitarvéla. En ástæðan er sú að í æði mörgum orðabókum stendur að orðið edda merki ‘langamma’ og mig minnir að það hafi líka verið nefnt þegar nývígt hús íslenskra fræða hlaut nafnið Edda sem er raunar mjög fallegt og viðeigandi nafn. En hvað segja gögnin? Orðið edda er reyndar alls ekki algengt í fornritum. Það kemur aðeins fyrir á einum stað sem almennt orð (fremur en sem heiti á eddunum tveimur). Við skulum skoða mynd.

Þetta er eina gagnið um orðið á miðöldum (Snorra-Edda, útg. Finnur Jónsson, Khöfn 1931) og eins og þið sjáið stendur hér ekki að edda merki ‘langamma’. Orðið er talið upp ásamt kvenheitum eins og móður, ömmu, eiðu, dóttur og jóð, og þar fram eftir götunum. Þannig að rökréttara væri að segja að edda sé skáldlegt heiti um konu til notkunar í kvenkenningum og engin dæmi finnast um aðra notkun orðsins á miðöldum fyrir utan sem titill verka um skáldskap og skáldskaparfræði og raunar finnast engin dæmi um að orðið hafi beinlínis verið notað í kenningu. Í Lilju er orðið edda haft við („eigi glögg þótt eddu regla“) og merkir augljóslega ekki langömmu eða konu. Auk heldur finnst orðið í Leiðarvísan en er oftast leiðrétt í dróttkvæðaútgáfum og merkir a.m.k. ekki langömmu. Edda kemur aftur á móti fyrir í Rígsþulu sem nafn á persónu sem er gift Áa — en það orð merkir ekki ‘langafi’ og stuðlunin kallar raunar á orð sem hefst á sérhljóða og helst e (sbr. Ask og Emblu, Adam og Evu).

Ef lesendur muna varðveislusögu Rígsþulu er hún aðeins í Snorra-Eddu (Wormsbók) og þar af leiðandi eru dæmin tvö um að edda merki hugsanlega formóður ekki óháð heldur úr sama riti. Hvorugt dæmið tekur þó af allan vafa að edda merki þar beinlínis ‘langamma’. Dæmi 1 segir okkur aðeins að orðið sé skáldlegt heiti, merki þá ‘kona’ en hugsanlega ‘formóðir’ þó að það sé engan veginn öruggt, og dæmi 2 er sérnafn, vissulega á konu sem er formóðir og gift karli sem er forfaðir. Þessi dæmi eru þannig úr sömu átt og gögn sem sýna að orðið edda hafi verið í almennri notkun á miðöldum í merkingunni ‘langamma’ eru þá engin.

Previous
Previous

Hlutskipti manns

Next
Next

Áföll og skeknar þjóðir