Hlutskipti manns
Ég hafði ekkert heyrt um Il Posto (1961) eða leikstjórann Ermanno Olmi (1931-2018) þegar þessi mynd birtist á Netflix nýlega en þessi streymisveita hefur greinilega skilgreint mig réttilega sem áhugamann um gamlar evrópskar myndir og stiklan virtist áhugaverð þannig að ég færði myndina í listann minn. Hann er raunar troðfullur og minnir að því leyti á bókahaugana sem stundum myndast heima en í apríl tók ég eftir andláti Sandro Panseri (1945–2023) sem lék aðalhlutverkið og ákvað að minnast hans með því að horfa á Il Posto (Starfið). Þessi mynd fellur mjög að mínum hæga smekk, fátt gerist og enn færra er sagt. Hún fjallar um ungan mann sem fær ekki að halda áfram í skóla en sækir um vinnu hjá stórfyrirtæki sem hann fær. Við tekur tiltölulega grá og ömurleg tilvist sem myndavélin túlkar í gegnum arkítekturinn: þrönga ganga og örvæntingarfull svipbrigði hans Sandro litla sem var aðeins 16 ára þegar myndin var tekin og tautar flest sem hann segir, ekki ósvipað Ítalanum á kaffihúsinu mínu sem mig grunar að sé líka frá Langbarðalandi.
Myndin minnti mig um margt á ungversku myndirnar sem ég horfði á í fyrra, ekki síst nýársboðið sem ungi maðurinn sækir í von um að ung stúlka sem hann rakst á í umsóknarferlinu verði þar. Hún mætir ekki og hann er fyrst einn í boðinu ásamt gömlum hjónum. Síðar færist fjör í leikinn en kannski er það ekki síður ömurlegt og manni koma í hug mörg leiðinleg og kjánaleg atvik úr partíum fortíðarinnar. Undir ítalskri glaðværð býr greinilega ungverskt vonleysi. Aldrei nær stráksi saman við stúlkuna enda eru þau hvort með sinn matartíma (leikkonan giftist hins vegar leikstjóranum og hætti að leika). Í kjölfar boðsins kemur annað ekki síður ömurlegt atriði þar sem ungi maðurinn er fluttur úr sendlastarfi á skrifborð í verkefnamiðuðu vinnurými en við tekur rifrildi þar sem allir ásælast nýja skrifborðið hans og að lokum færir hann sig aftar í salinn til að vera ekki fyrir neinum. Ekki fer framhjá neinum hversu smásálarleg og tilgangslítil baráttan um skrifborðið er en við þekkjum eflaust mörg eitthvað svipað úr vinnuumhverfinu.
Drengurinn í myndinni er greinilega klár náungi en ekki nægilega, bróðir hans yngri er aðeins klárari og fjölskyldan hefur aðeins efni á einum menntamanni. Skrifstofustarf til lífstíðar dæmist því á hann (þetta er sennilega löngu áður en allir sem eru ráðnir á skrifstofu eru kallaðir „leiðtogar“) og við fylgjum honum frá fyrsta vinnudegi. Hinn ungi Sandro Panseri var ekki atvinnumaður þegar hann fór með hlutverkið en kannski einmitt þess vegna gengur Olmi svona vel að ná úr úr honum svipbrigðum þess sem veit aldrei hvað hann á að gera. Framundan er heil óskiljanleg ævi sem er að vísu ekki mjög spennandi en það besta sem býðst, boðskapurinn e.t.v. að þannig sé lífið einfaldlega á þessum tíma, við getum ekki öll verið stjörnur í Beverly Hills eða hannað okkur sjálf að eigin vild.