Boðflennusögur

Franska kvikmyndin Swimming Pool var í danska sjónvarpinu í febrúar og ég sá hana þá í annað sinn. Þetta er svört kómedía í leikstjórn François Ozon sem ég hef nokkurn húmor fyrir en er sannarlega ekki allra. Rithöfundi einum (leikin af Charlotte Rampling) býðst franskt sumarhús útgefanda síns en friðurinn er fljótlega rofin af stúlku einni sem segist vera dóttir eigandans (leikin af Ludivine Sagnier) og truflar höfundinn mikið, m.a. með því að spranga um á bobbingunum sem eru engin smásmíði en einnig stundar hún hávært kynlíf í stofunni og að lokum dregur hún eldri konuna inn í morðmál.

Auðvitað er fléttan nokkurn veginn úr Leigjandanum eftir Svövu Jakobsdóttur (1969) og hefur hugsanlega táknrænt gildi eins og allar sögur þar sem einn ryðst inn á annan og hertekur líf hans. Þessi mynd er hins vegar kölluð erótískur tryllir á wikipediu, kannski vegna þess að eldri konan verður upptekin af þeirri yngri, horfir t.d. og hlustar á hana stunda kynlíf og er æst í að nýta sér hana í bókina sem hún er að skrifa eftir að verða skyndilega hugmyndalaus (allar þessar sögur um hugmyndalausa metsöluhöfunda höfða lítið til mín þar sem ég er hvorki hugmyndalaus né metsöluhöfundur!).

Þessari mynd var mjög vel tekið á sínum tíma en hún ber mörg höfundareinkenni Ozons sem er með mikinn húmor í verkum sínum, einnig umtalsvert og oft ósiðlegt kynlíf og stundum ofbeldi og spennu. Gagnrýnendur (en þessi stétt er yfirgnæfandi karlkyns) hrifust líka af hinni dularfullu stúlku sem við komumst raunar aldrei að hver er. Kannski er það þessi óvissa sem varð til þess að myndin fékk dúndurviðtökur gagnrýnenda þó að sumar aðrar myndir Ozons séu meira að mínu skapi.

Previous
Previous

Eldgos í ensku þorpi

Next
Next

Hlutskipti manns