Eldgos í ensku þorpi

Ég tek tarnir hvert einasta ár þar sem ég les verk Agöthu Christie á ný, bæði með þá óljósu hugmynd að senda frá mér bókmenntalega greiningu á verkum hennar sem ég þekki sannarlega flestum betur (komst á 30. borð í henni í Quizup án þess að tapa einum einasta leik) en líka vegna þess að mér finnst afslappandi að lesa bækur sem ég er vanur fyrir svefninn (í kjölfarið hef ég farið að lesa nýjar bækur á öðrum tímum dagsins). Nú getur bókmenntafræðingur ekki lesið bók án þess að vera í vinnunni og ég uppgötva eitthvað í hvert sinn. Um daginn tók ég eftir mikilli lýsingagleði höfundarins í tengslum við persónuna Ariadne Oliver sem er glæpasagnahöfundur og augljóslega bæði sjálfsparódía og stundum málpípa höfundar. Annars einkennast verk Christie af einföldu máli og fátæklegum lýsingum sem gera þau kjörin fyrir byrjendur eins og mig 13 ára þegar ég plægði í gegnum einar 70 Agöthur á einu ári og var það eins konar enskunámskeið ársins 1984.

Frú Oliver (aldrei fréttist neitt af eiginmanni hennar) heyrir til elliárum Agöthu sem notar hana aðeins tvisvar í bókum sömdum fyrir 1950 en einum sex sinnum eftir það og er ein mest notaða persóna hennar á seinustu 25 árum ferilsins. Síðan hér að ofan er þegar frú Oliver hefur feril sinn að nýju eftir langt hlé og lýsingagleðin er áberandi. Fyrst lýsir Christie því þegar skáldkonan stígur úr bílnum þannig að hún „attempted to extract herself from the car“ en bíllinn er smár og skáldkonan stór. Þetta á ég ekki erfitt með að sjá fyrir mér, eins erfiðlega og mér gengur stundum að komast út úr bílum — er þetta kannski skýringin á að allir Íslendingar eiga jeppa og jepplinga? Síðan birtist skáldkonan óvænt á veginum „rather in the manner of a volcanic eruption“ sem er skemmtilega kómískt, eldgos verandi stórfengleg en manneskja að stíga úr bíl fremur hversdagsleg. Að lokum hristir hún sig eins og Nýfundnalandshundur (sjá að neðan) og epli hrynja af henni.

Kannski er það einmitt þegar maður er farinn að lesa höfunda af gömlum vana að auðvelt er að gleðjast einlæglega þegar þeir sýna óvænt tilþrif. Eins og sjá má á ræðu frú Oliver neðst á myndinni fyrir neðan er hún ekki manneskja sem bíður svars þegar hún spyr en heldur bara áfram að tala. Tilfinning mín er að frú Christie sjálf hafi líkst frk. Marple meira að þessu leyti en sennilega eru báðar þessar gjörólíku konur fulltrúar hennar að einhverju leyti.

Previous
Previous

Vábeiðan á eynni

Next
Next

Boðflennusögur