Vábeiðan á eynni
Ég var svo heppinn að sjá kvikmyndina The Banshees of Inisherin í flugvél á leið til Budapest á sumardaginn fyrsta, hafði miklar væntingar þar sem ég er mikill aðdáandi Martin McDonagh eins og áður hefur komið fram á þessari vefsíðu og myndin marglofuð og verðlaunuð. Eins og hinar óskarsverðlaunamyndirnar sem ég ræddi nýlega er þessi mynd frekar sorgleg en þó fyndin og fetar að einhverju leyti sömu slóð og hin frábæra Three Billboards sem ég hef kallað Njálssögu nútímans. Sú. nýja er ekki jafn stór í sniðum en vissulega má finna þar a.m.k. eina Njálsbrennu þannig að e.t.v. er skyldleiki McDonagh og fornsagnanna fyrir hendi. Ég hafði ekki heldur áttað mig á að það væri raunveruleg vábeiða (banshee) í myndinni en erfitt er þó að túlka hina eldfornu frú McCormick á annan hátt eftir því sem hennar hlutur eykst í myndinni (og heitið er í fleirtölu þannig að óhjákvæmilegt er að svipast um eftir fleiri vábeiðum). Manni rennur kalt vatn milli skinns og hörunds þegar gamla konan segir „I wasn't trying to be nice, I was trying to be accurate“; kannski ættu það að vera einkennisorð fleiri en vábeiðu, t.d. margra verðlaunakvikmynda seinasta árs, eða listarinnar yfirleitt.
Ég veit ekki hvort það er rétt að kalla frú McCormick senuþjóf myndarinnar þar sem hún er eiginlega lykilpersóna sem sést þó sjaldan og vomar yfir myndinni eins og uppvakningur en auk heldur er senuþjófurinn enn frekar hinn einfaldi ástfangni Dominic sem yfirtekur allar senur sem hann tekur þátt í, leikarinn Barry Keoghan augljóslega framtíðarstjarna og handritið aldrei sterkara en þegar Dominic fær orðið. Hann er þó hliðarpersóna í meginfléttu myndarinnar sem fjallar um óskiljanlegar illdeilur tveggja gamalla vina sem eru í fyrstu kátlegar en smám saman verður þessi nútímalega fóstbræðrasaga æ öfgafyllri svo að mér þótti nóg um. Ég hygg að allir sem hafa orðið fyrir þeirri ógæfu að vera skyndilega sagt upp af vini skilji þjáningu aðalpersónunnar Padraic sem vaknar einn dag upp við að vera sagður of leiðinlegur fyrir vin sinn Colm. Þetta vekur kostuleg viðbrögð í héraðinu en að lokum verður myndin æ svartari uns við áheyrendur sitjum uppi sérkennilega tóm eins og vinalausar aðalpersónurnar.
Samband þeirra Colm og Padraic hafði aldrei verið ákaft eða neinir kynferðislegir undirtónar í því og þeim mun einkennilegri og sársaukafyllri eru skyndileg sinnaskipti Colms. Það er auðveldara að skilja systurina Siobhan sem heyr hetjulega baráttu við umhverfi þar sem hún nýtur sín engan veginn en flýr eyjuna að lokum, bæði þrengsl hugarfarsins en líka ástleitni Dominics sem freistar gæfunnar eftir langt hik og fær sársaukafulla höfnun. Óvíst er um tengslin milli hennar og þess sem síðar kemur fyrir hann.
Það merkilega við þessa mynd er að ég skil allar persónurnar sæmilega, jafnvel hinn illskeytta Colm því að við getum líka öll lent í því að hafa skyndilega fengið meir en nóg af manneskju sem hefur samt ekkert gert á hlut okkar þó að viðbrögðin séu sjaldan jafn róttæk og hjá Colm. Vinasambönd eru full af gildrum, fenjum og skrítnum afkimum og kannski felst óbein hvatning í þessari mynd að vera betri vinur.